Innlent

Lands­net í við­bragðs­stöðu vegna ó­veðursins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Háspennulínur á Reykjanesi ættu ekki að vera í hættu. Öðru máli gæti gegnt um háspennulínur á Norðausturlandi.
Háspennulínur á Reykjanesi ættu ekki að vera í hættu. Öðru máli gæti gegnt um háspennulínur á Norðausturlandi. Vísir/Vilhelm

Starfsmenn Landsnet eru í viðbragðsstöðu fyrir óveður sem reiknað er með að gangi yfir stóran hluta landsins á sunnudag. Aukinn mannskapur hefur verið kallaður út.

Ekkert ferðaveður verður á sunnudaginn og eru landsmenn eindregið hvattir til að ferðast ekki landshluta á milli. Veðrið verður vest á norðan- og austanverðu landinu þar sem mikil úrkoma og hvassviðri munu ráða ríkjum. Skaplegt veður verður hins vegar á morgun og mánudag.

Stóru handboltamóti sem fram átti að fara á Akureyri um helgina hefur verið frestað. Þá hafa töluverðar tilfæringar orðið á leikjum í Bestu deild karla á sunnudaginn. Sumum flýtt, öðrum frestað. Þá verður engin athöfn í Viðey þegar Friðasúlan verður tendruð á sunnudag vegna veðursins.

„Við höfum verið að rýna í veðurspána eins og flestir viðbragðsaðilar og höfum verið að skoða hvaða áhrif þetta geti mögulega haft á flutningskerfið. Við erum að fylgjast vel með til að bregðast við ef eitthvað gerist,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

Landsnet annast flutning raforku hér á landi með háspennulínum og tengivirkjum um allt land. 

„Maður veit aldrei hvenær verður truflun og hvenær ekki. Veðrið lítur ekki vel út núna. Við gætum átt von á ísingu sem gæti haft áhrif á flutningskerfið.“

Með ísingu geta háspennulínur þyngst verulega og orðið til þess að skemmdir verði á línunum eða möstrunum sem bera línurnar landshluta á milli. 

„Við erum með aukamönnun í stjórnstöð, úti í mörkinni og metum hvaða tengivirki þarf að manna til að vera með fljótt viðbragð. Svo skoðum við tæki og fleira í þeim dúr.“

Hún hvetur landsmenn til að fylgjast vel með tilkynningum.

„Miðað við spána í dag höfum við mestar áhyggjur af Norðausturlandi. En við munum fylgjast vel með því hvernig veðurspáin þróast.“


Tengdar fréttir

Á varðbergi vegna veðursins

Landsnet er á varðbergi vegna óveðursins sem spáð er að skelli á stóran hluta landsins næstkomandi sunnudag. Varað hefur verið við því að ísing og selta geti sest á raflínur og valdið rafmagnsleysi.

Aflýsa viðburði við tendrun Friðasúlunnar vegna veðurs

Engin athöfn verður í Viðey þegar Friðasúlan verður tendruð á sunnudag en ákveðið var að aflýsa viðburðinum vegna veðurs. Friðarsúlan verður tendruð klukkan 20 og verður hægt að fylgjast með í beinu streymi.  Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.