Innlent

Nem­endur Laugar­nes­skóla hafa veikst vegna myglu

Árni Sæberg skrifar
Húsnæði Laugarnesskóla er komið til ára sinna og er farið að bera þess merki.
Húsnæði Laugarnesskóla er komið til ára sinna og er farið að bera þess merki. Reykjavíkurborg

Lekaskemmda hefur orðið vart í húsnæði Laugarnesskóla með tilheyrandi myglu. Ráðist var í heildarúttekt á skólanum eftir að nemendur og starfsfólk kenndu sér meins vegna myglunnar.

Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla, greindi foreldrum barna í skólanum frá því við skólasetningu í haust að ráðist yrði í úttekt á skólahúsnæðinu vegna gruns um að lekaskemmdir væru á skólanum. Rétt í þessu sendi hún foreldrum tölvupóst þar sem segir að úttektin hafi leitt í ljós viðamiklar lekaskemmdir.

Skemmdir hafi fundist í þremur skólastofum, sem búið er að rýma, og á skrifstofum, í kaffistofum starfsmanna, á bókasafninu og í hluta heimilisfræðistofunnar.

Í samtali við Vísi segir Sigríður Heiða að öllum nemendum hafi þegar verið fundnar nýjar kennslustofur innan skólans, sem sé mjög heppilegt þar sem skólinn sé gjörsamlega sprunginn nú þegar.

Langt í að ráðist verði í mikilvægar framkvæmdir

Í tölvupóstinum til foreldra segir Sigríður Heiða að framkvæmdir séu þegar hafnar en að stærri framkvæmdir á borð við gluggaskipti þurfi að bíða til vors. Í samtali við Vísi segir hún að ástæða biðarinnar sé sú að ekki sé búið að bjóða verkið út og eftir það þurfi svo að panta rúðurnar. Það taki fleiri mánuði. 

Sigríður Heiða segir að lengi hafi staðið til að laga glugga skólans. Ráðist hafi verið í miklar endurbætur á húsnæðinu árið 2017, sem hafi verið vel unnar, en ekki skipt um glugga þá. Hvers vegna ekki getur hún ekki sagt til um og vísar á eignasvið Reykjavíkurborgar hvað það varðar.

Foreldrar hvattir til að tilkynna veikindi

Sem áður segir var ráðist í úttekt á húsnæði Laugarnesskóla eftir að nemendur og starfsfólk fór að sýna einkenni vegna myglu. „Ég vil ítreka við ykkur foreldra að láta okkur vita ef þið teljið að börn ykkar sýni einkenni sem má rekja til lekaskemmda og þá látum við skoða þau rými betur,“ segir í lok tölvupósts Sigríðar Heiðu til foreldra nemenda í skólanum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.