Innlent

Flugvélum beint frá Keflavík vegna sprengjuhótunar

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Samkvæmt heimildum fréttastofu bað flugstjóri UPS flutningaflugvélar um leyfi til að nauðlenda á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu bað flugstjóri UPS flutningaflugvélar um leyfi til að nauðlenda á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar. epa

Flutningaflugvél UPS lenti á Keflavíkurflugvelli upp úr klukkan ellefu í kvöld vegna sprengjuhótunar. Samkvæmt heimildum fréttastofu var flugvélin á leið frá Köln í Þýskalandi til Kentucky í Bandaríkjunum þegar flugstjóri óskaði eftir leyfi til lendingar á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar. Ekki er vitað nánar hvernig sú hótun barst áhöfn flugvélarinnar.

Í tilvikum sem þessum tekur lögreglustjórinn á Suðurnesjum við stjórn aðgerða sem nú standa yfir. Flugvélin stendur enn á einni flugbrauta flugvallarins en samkvæmt heimildum fréttastofu er áhöfnin komin út úr flugvélinni og óhult.

Nokkrum flugvélum, sem áttu að lenda á Keflavíkurflugvelli eftir að atvikið átti sér stað, var beint annað. 

Heimildir fréttastofu herma að ein flugvél frá Wizz air og önnur frá Transavia hafi verið beint til Egilsstaða. 

Þá hafi einnig flugvél Play sem var að koma til landsins frá Madríd verið beint til Reykjarvíkurflugvallar. Annarri var snúið við til brottfararstaðar. Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, staðfesti þetta í samtali við fréttastofu.

Þá mun flugvél frá Lufthansa, samkvæmt heimildum, hafa lent í Glasgow. 

Viðbragðsaðilar eru nú að störfum á Keflavíkurflugvelli. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort takast muni að draga UPS flugvélina af flugbrautinni áður en aðalmorgunumferðin hefst á Keflavíkurflugvelli. Farþegar á leið til útlanda ættu því að fylgjast vel með upplýsingum um brottfarir á heimasíðum Isavia og flugfélaganna.

Ekki náðist í Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, við vinnslu fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×