Innlent

Mynd­band sýnir Hollywood-lega til­burði inn­brots­þjófsins sem seig niður um gat í loftinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Innbrotsþjófurinn seig niður um gat í þakinu, eftir að hafa sagað sér leið þangað í gegn. Hann átti þó í meiri erfiðleikum með að komast út.
Innbrotsþjófurinn seig niður um gat í þakinu, eftir að hafa sagað sér leið þangað í gegn. Hann átti þó í meiri erfiðleikum með að komast út. Skjáskot

Innbrotsþjófur sem lagði töluvert á sig til þess að brjótast inn í verslunina Prinsinn í Árbænum í vikunni fór tómhentur út. Eigandi verslunarinnar veltir því fyrir sér hvort að viðkomandi sé að undirbúa sig undir eitthvað stærra.

Í myndbandinu hér að neðan má sjá upptöku úr öryggismyndavél þar sem sjá má tilburði umrædds innbrotsþjófs við innbrotið. Svo virðist sem hann hafi sótt innblásturinn til Hollywood. 

En hvernig var atburðarrásin? Guðjón Jónasson, eigandi sjoppunnar fór yfir aðstæðurnar með fréttamanni, eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan.

„Eins og þið sjáið kannski hérna uppi þá er gat hérna í loftinu. Maðurinn fer hérna og er búinn að saga sig í gegn. Tekur bita úr loftinu og lætur sig síga hérna niður. Hleypur beint að sígarettuskápnum hjá mér sem að þú opnar ekki svo auðveldlega,“ segir Guðjón.

Maðurinn klifraði upp á þak og sagaði sér leið í gegnum það.Skjáskot

Fát virðist þá hafa komið á innbrotsþjófinn sem hljóp í átt að lokaðri útidyrahurðinni.

„Hérna byrjar hann að búa til gat á glerið. Gatið er ekki nema kannski svona stórt og eins og þú sérð, ég myndi kannski rétt ná öxlinni út. Hann hoppar einhvern veginn hérna í gegnum gatið. Festir sig í miðjunni, sporðreisist og lekur einhvern veginn út með glugganum. Þetta er eins og atriði í bíómynd,“ segir Guðjón.

Hið flókna innbrot bar hins vegar engar árangur.

„Nei, hann hafði ekkert upp úr krafsinu og það eru flestir hérna sem hafa ekkert upp úr krafsinu að koma hérna inn, það er ekkert geymt hérna yfir nóttina,“ segir Guðjón sem var alveg gapandi hissa þegar hann kíkti á öryggismyndavélarnar.

Sjoppan Prins í Hraunbæ. Vísir/Vilhelm

Þetta er fimmta innbrotið í Prinsinn á einu ári. Þýfið? fjórir sígarettupakkar. Þessi tilraun sker sig þó úr.

„Þetta er sú flóknasta, hann hefur horft aðeins of mikið á Mission Impossible þessi. Það er spurning hvort hann sé að æfa sig fyrir eitthvað stærra.“

Ertu með einhver skilaboð til þeirra sem hafa mögulega hug á því að brjótast hingað inn?

„Bara sleppið því, það er ekkert að fá upp úr krafsinu.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×