Tónlist

„Éf ég hefði ekki tónlistina þá væri ég ekki andandi“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Unnsteinn talar um lagið Andandi í öðrum þætti hlaðvarpsins Amatör.
Unnsteinn talar um lagið Andandi í öðrum þætti hlaðvarpsins Amatör. Aðsent

„Í svona fjölbreyttri stórborg, þá hættir íslendingur smátt og smátt að vera sonur Önu eða Stefáns, eða frændi eða bróðir eða neitt þangað til að einn daginn, Þá er ekkert til sem heitir Unnsteinn Manuel. Þetta er öfugt við Ísland, þar sem allir þekkja alla,“ segir Unnsteinn Manuel um lífið í Berlín í nýjasta hlaðvarpsþættinum af Amatör.

„Hér þekki ég nánast engan í hverfinu.  Enginn veit hvað þú gerir, hefur gert eða vilt gera í lífinu. Og fyrir fólkinu í hverfinu ertu bara söngelski maðurinn með bluetooth hátalarann og fallegu fjölskylduna á hjólatúr um hverfið. Já lífið í Berlín er gott, og eiginlega alltof gott stundum. Því að um leið og maður losnar undir lífsgæðakapphlaupinu á Íslandi og fattar hvað alvöru lífsgæði eru þá getur það líka gerst að maður gleymir sér og hvað maður kom hingað til að gera.“

Í Berlín varð lagið Andandi til, en það er einmitt viðfangsefnið í öðrum þætti af hlaðvarpinu Amatör. 

„Stundum trúi ég því að allir geti gert list og svo á öðrum stundum finnst mér eins og allir sem leggja þetta fyrir sig hljóti að vera haldnir einhverskonar sjálfseyðingarhvöt eða geðveilu.“

„Alla daga þegar þú sest við teikniborðið eða píanóið eða tóma Word skjalið þá verður að bíða þín krefjandi verkefni. Eitthvað sem eflir þig og dýpkar í listinni. Þannig að já, allir geta verið skapandi. En shit hvað það er oft erfitt, og ég skil alltaf betur og betur fólk sem segir skilið við tónlist og fer og fær sér, innan gæsalappa, hefðbundna vinnu.“

Unnsteinn segir mörg dæmi um þetta eftir heimsfaraldurinn.

„Af hverju að pína sig áfram kvöld eftir kvöld og helgi eftir helgi og vera heppinn að standa eftir með launaseðil á við einn mánuð á listamannalaunum eftir alla þessa vinnu. Meðallaun á Íslandi, það er að segja heildarlaun, eru tæp 800.000 á mánuði. Ef maður situr eftir með sirka helminginn af því á mánuði fyrir að vinna í tónlist, þá getur maður talist nokkuð heppinn.“

Í þættinum talar Unnsteinn einnig um það að textavinnan hefur vafist fyrir honum aftur og aftur, ár eftir ár.

„Ég skal viðurkenna það, að ég vissi ekkert hvað ég var að gera öll þessi ár sem ég skrifaði texta á ensku. Þegar ég skipti yfir í íslensku fyrir nokkrum árum þá opnaðist þessi heimur fyrir mér, en þetta varð líka miklu erfiðari iðja fyrir vikið. Mér finnst bara miklu skemmtilegra að skrifa á íslensku og miklu meira gefandi þegar að það tekst upp. En eins og ég segi, þá er ekki þar með sagt að það takist alltaf upp.“

Unnsteinn samdi lagið Andandi á skömmum tíma en hann fer nánar út í sköpunarferlið og æfingarnar sem hann notar í þættinum.

„Litla leyndarmálið í þessu öllu er að ég trúi því að listaverk séu eins og stjörnur á himni. Ég er ekki að fara finna upp á þessari stjörnu, en ég get hreinsað hugann næginlega mikið með þessum æfingum til þess að opna hugann það mikið að ég geti krækt í þessa stjörnu og hripað verkinu niður á blað.“

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni á Spotify og í spilaranum ofar í fréttinni.


Tengdar fréttir


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.