Lífið

Skipti um fag í miðri masters­rit­gerð og klárar nýja námið fer­tugur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Böðvar leikur handbolta með Aftureldingu og er samhliða því í læknisfræði. 
Böðvar leikur handbolta með Aftureldingu og er samhliða því í læknisfræði. 

Böðvar Páll Ásgeirsson kláraði fimm ár í hagfræði, átti aðeins ritgerðina eftir en ákvað þá að hætta og fara frekar í læknisfræði.

Ef hann klárar hana verður hann fertugur þegar hann útskrifast með sérmenntun. Sindri Sindrason ræddi við Böðvar í Íslandi í dag á Stöð 2í gærkvöldi. Böðvar er handboltamaður og var meðal annars í yngri landsliðum Íslands. Hann segir að það hafi ekkert annað komið til greina á sínum tíma en að verða atvinnumaður í greininni og spila í Þýskalandi. Böðvar hefur aftur á móti glímt við mikil meiðsli og þurfti því eitthvað varaplan. Hann skráði sig því í verkfræðina.

„Ég prófaði það í hálft ár en mér fannst það alveg hræðilegt. Þá vann ég á leikskóla í hálft ár og fór síðan í hagfræði. Ég fór með svolítið rangt hugafar í hagfræðina. Ég ætlaði bara að vera þarna til að mæta í tíma og nennti ekkert að kynnast neinum, var bara handboltamaður og ætlaði að einbeita mér að því,“ segir Böðvar og heldur áfram.

Rangt hugafar

„Maður var því svolítið útundan til að byrja með en reyndi að taka mig á undir lokin og sá þá kannski að það væri ekki alveg nægilega gott að þekkja engan þarna.“

Böðvar kláraði þessi þrjú ár og útskrifaðist með fína einkunn en var alls ekki spenntur fyrir þessari gráðu sinni. Hann ákvað samt sem áður að fara í master í hagfræði þrátt fyrir að hafa skoðað sálfræði. Böðvar flutti til Kaupmannahafnar og hóf mastersnám í hagfræði. Það þótti honum alls ekki skemmtilegt. En hann vissi ekkert hvað hann vildi gera í raun. Svo kom að mastersritgerðinni.

„Ég var búinn að finna efni en ég fór síðan að hugsa, þó ég væri orðinn 27 ára eins og ég var þarna að ég gæti alveg byrjað upp á nýtt. Þó ég væri búinn að eyða x mörgum árum í eitthvað annað. Þá kom læknisfræðin upp. Ég kynnti mér þetta mjög vel eins og ég er vanur að gera og ákvað að fara í læknisfræði.“

Hann varð að fara í inntökupróf og náði því eftir að hafa lært mjög mikið fyrir það.

„Kærastan mín studdi mig hundrað prósent í þessari ákvörðun. Mamma mín sagði mér að klára mastersritgerðina og ég myndi alltaf sjá eftir því að gera það ekki en hún studdi mig að lokum í þessu eftir að hafa hlustað á mín rök,“ segir Böðvar sem verður umfertugur þegar hann klárar sérhæfingu í læknisfræði.

Hér að neðan má sjá innslagið í heild sinni.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.