Menning

Heitasta listapar landsins býður í heimsókn

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Parið Saga Sig og Vilhelm Anton bjóða í opna vinnustofu á Menningarnótt.
Parið Saga Sig og Vilhelm Anton bjóða í opna vinnustofu á Menningarnótt. Illugi Vilhemsson

Listræna kærustuparið Saga Sigurðardóttir og Vilhelm Anton Jónsson ætla að veita gestum og gangandi innsýn í skapandi hugarheima sína á Menningarnótt með opinni vinnustofu. Blaðamaður heyrði í Sögu og fékk að heyra nánar frá þessum viðburði.

Öðruvísi upplifun

„Við ákváðum að opna vinnustofunni fyrir gestum því við höfum gert það áður og það var svo skemmtilegt,“ segir Saga. „Okkur finnst sjálfum gaman að heimsækja aðra listamenn, það er einhvern veginn allt annað en að fara á sýningu.“

Hún segir stúdíó þeirra einnig vel staðsett, á þriðju hæð á Laugavegi 25, sem hentar einstaklega vel á Menningarnótt.

Fyrstu tónleikarnir í þrjú ár

Það er ýmislegt spennandi í bígerð hjá Sögu og Villa en ólík listform mætast á laugardaginn.

„Við erum bæði búin að vera mála ný verk og svo passaði fullkomlega að hljómsveitin hans Villa, 200.000 naglbítar, héldu tónleika. Þeir hafa ekki spilað í þrjú ár og taka nokkur lög klukkan 20:00. Húsið er annars opið frá 17:00 á laugardaginn,“ segir Saga og bætir við:

„Villi sýnir ný verk sem hann málaði út frá því að hlusta á skáldsögur og ævisögur Hemingway og serían einkennist af abstrakt portraitum af honum. Mín verk eru framhald af því sem ég hef verið að mála, þetta eru abstrakt verk sem eru máluð út frá tilfinningu.“

Listaverk eftir Villa.Aðsend

Skapandi samband

Parið fer skapandi leiðir í lífinu og má segja að listin sé rauður þráður hjá þeim.

„Það eru mikil forréttindi að vera í sambandi þar sem báðir aðilar hafa svona mikla ástríðu fyrir því að skapa og vinna við það. 

Við förum oft öll fjölskyldan saman upp á vinnustofuna og strákarnir okkar að mála, teikna eða búa til tónlist líka.“

Aðspurð segir Saga að hún og Villi vinni vel saman.

„Við höfum ekki beint sameinað krafta okkar í listsköpunni, kannski aðallega hjálpað hvort öðru þar sem styrkleikar okkar liggja. Ég til dæmis við að taka myndir fyrir verkefnin hans Villa og Villi að hjálpa mér í hugmyndavinnu og textasmíð. Við höfum reyndar framleitt saman verkefni fyrir skandinavíska Vogue,“ segir Saga að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×