Enski boltinn

Erik ten Hag segir að leikmenn United skorti sjálfstraust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo er með mikið sjálfstraust en hann byrjaði á bekknum í tapleik Manchester United á móti Brighton á Old Trafford um helgina. Þessi svipur hans segir meira en þúsund orð.
Cristiano Ronaldo er með mikið sjálfstraust en hann byrjaði á bekknum í tapleik Manchester United á móti Brighton á Old Trafford um helgina. Þessi svipur hans segir meira en þúsund orð. AP/Ian Hodgson

Manchester United liðið hefur svo sannarlega fengið að heyra það eftir fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið tapaði á heimavelli á móti Brighton.

Þetta var fyrsti deildarleikur liðsins undir stjórn Hollendingsins Erik ten Hag og ný reynir á hann að snúa við gengi liðsins en ástandið minnir strax mikið á vonbrigðin frá því í fyrravetur.

Knattspyrnustjórinn sjálfur talaði um það eftir leikinn að leikmenn liðsins skorti sjálfstraust sem er sérstakt enda á ferðinni margir af launahæstu leikmönnum deildarinnar.

„Við byrjuðum leikinn vel en síðan gáfum við eftir, misstum trúna og gerðum mistök sem mótherjinn okkar refsaði okkur fyrir,“ sagði Erik ten Hag.

„Ég get skilið að liðið skorti sjálfstraust eftir síðasta tímabil en það er algjör óþarfi. Þeir eru góðir leikmenn og sjálfstraust á að koma frá þér sjálfum,“ sagði Ten Hag.

„Ég vissi að þetta gæti gerst en við hefðum átt að gera betur, það er á hreinu. Þetta mun heldur ekki lagast yfir nóttu. Í þessum leik áttum við okkar versta kafla í fyrri hálfleik og við verðum að læra af því. Það er líka á hreinu,“ sagði Ten Hag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.