Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá ferðalagi skipsins en við sáum það síðastliðinn mánudag í hinu stórbrotna umhverfi við fjallið Horn, í fjörunni sem liggur þaðan að Stokksnesi.
Þar var landeigandinn Ómar Antonsson mættur á gröfu til að búa til rás. Svo sáum við stóra hjólaskóflu koma akandi. Það var greinlega verið að undirbúa það að koma víkingaskipinu á land.

„Ég er að flytja það frá Kópavogi og hingað austur í Hornafjörð, að Horni, þar sem það á að vera við víkingabæinn,“ segir Ómar Antonsson, landeigandi á Horni.
Víkingaþorpið undir Horni var upphaflega smíðað árið 2009 sem leikmynd fyrir víkingamynd sem aldrei var gerð en þjónar núna því hlutverki að laða að ferðamenn. Víkingaskipinu er ætlað að treysta þann segul en það hafði lengið legið í reiðileysi í Kópavogshöfn.

Ómar hugðist flytja það austur á flutningabíl sem komst ekki lengra en að Jökulsárlóni því brúin þar reyndist of mjó.
„Ég komst ekki í gegnum Jökulsána á Breiðamerkursandi þannig að við urðum að fleyta því þaðan,“ segir Ómar.

Lóðsinn á Hornafirði, Björn lóðs, var svo fenginn til að draga skipið frá ósi Jökulsár á Breiðamerkursandi og upp að Horni. Þetta tignarlega fjall er fyrsta örnefnið á Íslandi sem getið er í upphafskafla Landnámabókar en þangað var sögð sjö dægra sigling frá Stað í Noregi.

„Horn var náttúrlega þar sem þú kemur fyrst að úr hafinu, ef þú ferð rétta leið hérna á milli Færeyja og Íslands, náttúrlega. Þannig að þetta er landnámsstaðurinn,“ segir landeigandinn.
Víkingaskipið var upphaflega smíðað árið 2007 í Brasilíu af áhugamanni um víkingasögur, með norska Gaukstaðaskipið sem fyrirmynd. Það var síðan keypt til Íslands í þeim tilgangi að sigla með ferðamenn úr Reykjavíkurhöfn.

Eftir fimmtán ára ferðalag virðist það núna hafa fengið endanlegan samastað undir Horni en eftir er að setja á það mastrið.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Skipið komst í fréttirnar í fyrrahaust þegar það rak úr Kópavogshöfn og strandaði á Bessastaðanesi.