Innlent

Mötu­neyti og í­þrótta­hús Foss­vogs­skóla í álmunni sem opnar ekki

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fossvogsskóli í Fossvogsdal.
Fossvogsskóli í Fossvogsdal. Vísir/Vilhelm

Mötuneyti, íþróttahús og kaffistofa kennara Fossvogsskóla eru í Meginlandi, álmu skólans sem opnar ekki í haust. Álman er sú verst farna af myglu og hafa foreldrar óskað eftir því að hún verði rifin.

Í morgun var greint frá því að skólastarf í Fossvogsskóla hefjist aftur í haust þrátt fyrir að einhverjum verklegum þáttum verði ekki lokið við upphaf kennslu. Til dæmis verða mötuneyti og íþróttahús skólans ekki í notkun.

Í samtali við fréttastofu segir Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, að Hjálpræðisherinn muni senda nemendum skólans mat, líkt og hefur verið gert upp á síðkastið. Þá muni nemendur borða matinn í skólastofum sínum.

„Víkingur hefur hleypt okkur inn í Víkina þannig við verðum með íþróttir þar. Síðan er kaffistofa starfsmanna er líka í Meginlandinu en það er búið að útbúa hana í færanlega húsinu sem við vorum í í vetur og verðum áfram í,“ segir Hafdís.

Meginland er eina álma skólans sem verður ekki opnuð í haust og verður allt skólastarf í álmunum Austurland og Vesturland. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um afdrif Meginlands en foreldrar hafa farið fram á að hún verði rifin en borgin heldur í vonina um að nýta megi álmuna með verulegum breytingum.

Allir nemendur skólans verða í Fossvogsdal næsta haust en á tímabili var skólinn með aðsetur í húsnæði Hjálpræðishersins.


Tengdar fréttir

Skólastjóri Fossvogsskóla hættir

Skólastjóri Fossvogsskóla er hættur störfum. Það kom fram í pósti sem Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sendi í dag. Starfsemi Fossvogsskóla hefur verið flutt annað vegna myglu- og rakaskemmda.

Allt skólahald færist í Fossvogsdalinn næsta haust

Skólastarf í Fossvogsskóla mun allt fara fram í Fossvogsdal frá og með næsta skólaári. Ráðist verður í umfangsmiklar framkvæmdir á húsnæði skólans til þess að komast fyrir mygluvandræði sem plagað hafa skólastarfið að undanförnu.

Mánaðar­leigan 1,2 milljónir króna

Reykjavíkurborg mun greiða 1,2 milljónir króna í leigu mánaðarlega fyrir húsnæði Hjálpræðishersins sem ætlað er að brúa bilið vegna kennslu fyrir yngstu nemendur Fossvogsskóla á meðan unnið er við uppsetningu bráðabirgðahúsnæðis á lóð skólans meðan viðgerðir fara fram á aðal húsnæði Fossvogsskóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×