Erfitt að skilgreina
Björg Örvar hefur sýnt víða og er löngu orðin þekkt fyrir málverk sem erfitt er að skilgreina en tenging við náttúruna, tilfinningar og manneskjuna er augljós í áhrifamiklum verkum hennar. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1979 og stundaði síðan listnám við University of California á árunum 1981-1983. Á þessari sýningu má sjá málverk sem listamaðurinn hefur unnið að síðustu árin ásamt nýjum verkum.
Fullkomið samtal við nútímann
Ásdís Þula, eigandi Gallery Þulu, sagði í samtali við blaðamann að verk Bjargar ættu mikinn samastað í samtímanum:
„Þó svo að Björg hafi starfað lengi þá tel ég persónulega að hennar tími sé núna, þar sem abstrakt verk hennar eru í fullkomnu samtali við nútímann með sínar mjúku lífrænu línur og litasamsetningu.“
Kjarni málsins
Halldóra Kristín Thoroddsen, skáld og rithöfundur, skrifaði texta um Björgu og verk hennar sem hljóðar svo:
„Form er innihald, innihald er form. Sem aldrei fyrr lýkst sá sannleikur upp fyrir tímanum. Efnisagnir eru upplýsingar í tómi leitandi að sinni samsvörun. Getum við talað um þrá efnsins?
Náttúrulífsmálarinn Björg Örvar fjallar um kjarna málsins. Hið smæsta og hið stærsta. Alheim og öreind. Í hugleiðsluástandi skynjum við stundum að innst inni erum við hið sama og umhverfi okkar, örsaga í því heildarverki, byggð því sama efni. Maður, jörð og alheimur eru eitt.
Það er erfitt að mæla Björgu hillupláss í stefnuúrvali myndlistarheimsins. Hér dugir engin ættfærsla, til þess er höfundurinn of sérsinna, þó að hann standi föstum fótum í hringiðunni miðri, dorgandi jafnt úr fagurbókmenntum, tónlist, vísindum og sjónrænum listum. Tilraunir hennar minna kannski helst á tilraunir sumra tónlistarmanna þegar þeir fara inn í tóninn og bjaga fram á bjargbrún, til þess að finna mörkun á milli þess að vera tónn eða bara hljóð.“
Sýningin stendur til sjöunda ágúst næstkomandi.