Innlent

Meðal­tekjur 640 þúsund krónur á mánuði

Árni Sæberg skrifar
Frá undirritun kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara árið 2019. Tekjur landsmanna árið 2021 byggðu að miklu leyti á þeim samningum.
Frá undirritun kjarasamninga hjá ríkissáttasemjara árið 2019. Tekjur landsmanna árið 2021 byggðu að miklu leyti á þeim samningum. Vísir/Vilhelm

Heildartekjur einstaklinga voru um 7,7 milljónir króna að meðaltali árið 2021. Það gerir um 640 þúsund krónur á mánuði. Miðgildi tekna var lægra, um fimm hundruð þúsund krónur á mánuði.

Það þýðir að helmingur var með tekjur undir fimm hundruð þúsund krónum og helmingur yfir. Þetta kemur fram í skýrslu á vef Hagstofunnar.

Þar segir að tekjur hafi verið rúmlega átta prósent hærri en árið 2020 en sé horft til verðlagsleiðréttra heildartekna er hækkunin tæplega fjögur prósent. 

Meðaltekjur eru hæstar í aldurshópunum 45 til 49 ára, 50 til 54 ára og 55 til 59 ára, rúmlega tíu milljónir króna á ári, og lægstar í yngsta aldurhópnum 16 til 19 ára, tæplega 1,6 milljón króna á ári.

„í því samhengi er rétt að benda á að hér er um að ræða einstaklingstekjur og að margir í þessum aldurshópi búa enn í foreldrahúsum,“ segir í skýrslunni.

Hér að neða má sjá heildartekjur á ári í þúsundum króna eftir aldri árið 2021:

Hlutfall atvinnuleysisbóta dróst saman milli ára

Heildartekjur samanstanda af atvinnu-, fjármagns- og öðrum tekjum. Atvinnutekjur mynda stærstan hluta tekna flestra aldurshópa. Aðeins hjá 67 ára og eldri eru atvinnutekjur ekki meirihluti tekna, eða aðeins fjórtán prósent.

Árið 2021 skiptust heildartekjur allra einstaklinga þannig að atvinnutekjur voru 68,2 prósent af heildartekjum, fjármagnstekjur 9,2 prósent og aðrar tekjur 22,6 prósent. Til annarra tekna teljast meðal annars lífeyrisgreiðslur, greiðslur frá Tryggingastofnun og aðrar bótagreiðslur. Hlutfall annarra tekna dróst saman á milli ára og skýrist það af því að hlutfall atvinnuleysisbóta dróst saman frá árinu 2020. 

„Árið 2020 hafði hins vegar summa tekna vegna atvinnuleysisbóta aukist verulega á milli ára, meðal annars vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Summa tekna vegna atvinnuleysisbóta var þó eftir sem áður sögulega há árið 2021,“ segir í skýrslunni.

Ítarlegt yfirlit yfir tekjur Íslendinga má lesa á vef Hagstofunnar hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×