Þetta kemur fram í nýrri könnun Fréttablaðsins. Sjötíu og tvö prósent aðspurðra segjast þar vera fylgjandi því að erlendir ferðamenn greiði fyrir aðgang að náttúruperlum, á sama tíma og aðeins þrjátíu prósent eru fylgjandi því að Íslendingar greiði fyrir slíkt.
Tólf prósent segjast mótfallin því að erlendir ferðamenn greiði gjald á slíkum stöðum, en 54 prósent þegar kemur að Íslendingum. Ekki munar miklu á afstöðu fólks hvort það búi á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni, en stuðningur við gjaldtöku er almennt minnstur í yngsta aldurshópnum og hækkar með hækkandi aldri.
„Unnið verður að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um gjaldtöku í ferðamannaiðnaði. Fyrirhugað væri að ráðast í tekjuöflun af ferðamönnum frá og með 2024 sagði einnig í svari hennar.
Könnunin var framkvæmd dagana 22. júní til 4. júlí á netinu. Úrtakið var 2.000 einstaklingar 18 ára og eldri og svarhlutfallið 50,8 prósent.