Innlent

Mikið tjón á innviðum hugsanlegt í nýju gosi á Reykjanesi

Kjartan Kjartansson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, í íþróttahúsinu í Grindavík þar sem íbúafundur um óvissustig vegna jarðskjálftahrinu var haldinn í kvöld.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, í íþróttahúsinu í Grindavík þar sem íbúafundur um óvissustig vegna jarðskjálftahrinu var haldinn í kvöld. Vísir/Stöð 2

Jarðvirkni og landris sem nú á sér stað á Reykjanesi er á þannig stað að mikið tjón gæti orðið á innviðum ef eldgos hæfist þar. Íbúafundur vegna jarðskjálftahrinunnar var haldinn í Grindavík í kvöld.

Fyrir tveimur til þremur vikum hófst jarðskjálftahrina við Svartsengi á Reykjanesi. Um síðustu helgi mældust nokkrir jarðskjálftar yfir þrír að stærð, sá stærsti þeirra 4,3 á sunnudag. Land hefur nú risið um nokkra sentímetra, að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðfræðings, sem var einn frummælenda á íbúafundinum í kvöld.

„Það er skýrt merki um að kvika sé byrjuð að troða sér inn á fjögurra til fimm kílómetra dýpi,“ sagði Magnús Tumi við fréttamann Stöðvar 2 fyrir fundinn.

Enn sem komið er hefði mjög lítil kvika safnast upp. Land gæti risið mun meira án þess að til eldgoss kæmi. Erfitt væri að segja hvenær slíkt gæti gerst. Magnús Tumi benti á að nú væri hafið óróatímabil á Reykjanesskaga sem þýddi að fólk þyrfti að vera viðbúið eldgosum.

Klippa: Magnús Tumi ræðir jarðhræringar á Reykjanesi

Kæmi til goss á næstunni sagði Magnús Tumi líklegast að það yrði á þeim slóðum þar sem land rís nú. Á þeim slóðum eru miklir innviðir: raforkuver í Svartsengi, Bláa lónið, Grindavíkurvegur og hitaveitulagnir.

„Þannig getur orðið mikið tjón þó að það yrði ekki mjög stórt gos,“ sagði Magnús Tumi.

Líkurnar á manntjóni væru þó litlar þar sem hlutirnir gerist ekki það hratt í hraungosi.

„En þetta er svona staður þar sem geta orðið miklar skemmdir,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Enn hætta á stórum skjálfta

Enn er sú hætta fyrir hendi að jarðskjálfi allt að 6,5 að stærð verði í Brennisteinsfjöllum. Slíkur skjálfti hefði að öllum líkindum veruleg áhrif á höfuðbogarsvæðinu. Íbúafundur verður haldinn á Grindavík á morgun vegna aukinnar skjálftavirkni við bæinn.

Jarðskjálftahrina í gangi á Reykjanesi

Fimm jarðskjálfar stærri en þrír að stærð hafa mælst á Reykjanesi frá því í hádeginu. Sá stærsti þeirra mældist 4,1 nú um miðjan dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.