Oddvitar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata hafa ákveðið að fylgjast að í viðræðum um myndun nýs meirihluta eftir að Vinstri Græn ákváðu að taka ekki þátt meirihlutasamstarfi.
Samkvæmt því hafa möguleikar Sjálfstæðisflokksins til að mynda meirihluta minnkað verulega þar sem bæði Píratar og Sósíalistar hafa útilokað við þá samstarf.
Samfylking eða Viðreisn með Flokki fólksins væru því nauðsynleg púsl. Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingar sagði þó í Íslandi í dag í gær að samstarf Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar væri ólíklegt.
„Þessi stóru mál sem nutu svona mikils fylgis hefur Sjálfstæðisflokknum ekki lánast að ná samstöðu um, ekki einu sinni í eigin hópi. Þannig mér líst þannig á að þau þurfi kannski að byrja á því áður en þau fara að vinna með öðrum,“ sagði Dagur í gærkvöldi.

Viðreisn hefur ekki útilokað samstarf til hægri en eins og staðan er nú virðist raunhæfast að viðræður byrji hjá bandalaginu - eða flokkunum sem eftir standa af meirihlutanum og Framsókn. Einar Þorsteinsson oddviti Framsóknar telur stöðuna þó galopna og útilokar ekkert.
„Ég held að það sé bara mjög mikilvægt að oddvitar allra flokka nálgist þessi samtöl með opnum huga. Ég skil vel að þau vilji halda sér saman. Þau hafa unnið saman undanfarin ár og verkefnið er að mynda nýjan meirihluta.“
Hann og Dagur ætli að hittast og ræða málin yfir kaffibolla og eins vilji hann heyra í öllum öðrum. Formlegar viðræður hefjist þó ekki í dag.
„Í dag eru símtöl milli allra oddvita heyri ég og það er gott. Ég vil heyra í öllum oddvitum flokkanna vegna þess að þetta verða vinnufélagar mínir næstu fjögur árin og ég legg áherslu á að fólk sé lausnamiðað í því að ná saman um málefnin. Þessi óformlegu samtöl sem eiga sér núna stað ganga út á að skoða hvaða fletir eru á samstarfi,“ segir Einar.

Hann bendir á að meirihlutinn hafi fallið og telur kjósendur vilja breytingar.
„Það kallar bæði á breytingu á stefnu borgarinnar í mörgum málum en líka hvað varðar pólitíska forystu.“
Í viðræðum leggi Framsókn meðal annars áherslu á breytingu á stefnu í húsnæðismálum, málefnum barna, Sundabraut og breytt vinnubrögð með aukinni samvinnu í borgarstjórn.
Hann segist ekki gera kröfu um stól borgarstjóra en er þó áhugasamur.
„Ég held að allir oddvitar sem bjóða sig fram vilji komast í þá stöðu að geta haft sem mest áhrif og ég er einn af þeim,“ segir Einar. „Það hafa allir áhuga á því að vera borgarstjóri ef þeir eru í borgarpólitíkinni held ég.“