Innlent

Mikilvægt að fella meirihlutann

Samúel Karl Ólason skrifar
Ómar Már Jónsson og fjölskylda hans.
Ómar Már Jónsson og fjölskylda hans. Vísir/Sigurjón

Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins í borginni, segir flokkinn á mikilli siglingu og vonast til þess að hægt verði að fella meirihlutann. Hann segir mikilvægt að setja væntingar, óskir og þarfir íbúa í fyrsta sæti.

Hann mætti á kjörstað í Ölduselsskóla um klukkan 11:30 í dag.

„Dagurinn leggst rosalega vel í mig,“ sagði Ómar og bætti við að kosningabaráttan hefði verið rosalega skemmtileg.

„Ég er eitt af þessum nýju andlitum sem hafa verið að gefa kost á sér til að starfa í þágu íbúanna og mér finnst það hafa tekist vel. Mér finnst ég hafa fengið mikinn stuðning og ég vona svo innilega að ég fái stuðning til þess að fara inn í borgarstjórn. Því ég tel að ég geti haft raunveruleg áhrif.“

Ómar sagði erfitt að greina kannanir almennilega því um fimmtíu prósent fólks vildi ekki gefa upp afstöðu sína. Miðflokkurinn hefði margfaldað fylgi sitt í Reykjavík í kosningabaráttunni og væri á mikilli siglingu.

Varðandi það hver hans fyrstu verk yrðu, komist hann í bæjarstjórn sagði Ómar að miðflokkurinn hefði skapað sér gríðarlega sérstöðu. Þau væru alfarið á móti Borgarlínunni og vildu standa vörð um flugvöllinn í Vatnsmýri og setja væntingar, óskir og þarfir íbúa í fyrsta sæti.

„Þeir hafa ekki verið áberandi á borðinu hjá borgarstjórn. Þetta hefur verið einhver sérhagsmunagæsla sem ég skil ekki og við þurfum að breyta því hjá borginni. Borgin á að vera að sinna íbúum sínum fyrst og fremst.“

Ómar sagðist tilbúinn til að taka að sér embætti borgarstjóra og sagði að hann myndi leysa það vel af hendi. Aðalmálið væri þó í dag að komast í borgarstjórn og fella meirihlutann.


Tengdar fréttir

„Í dag upp­lifi ég aðal­lega þakk­læti“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, segist nú á leið til fundar við félaga sína í Sjálfstæðisflokknum þar sem þau ætli að klára þennan síðasta dag í kosningunum, heyra í fólki og „sigla þessu heim í kvöld“.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.