Lífið

Vekja mikla athygli á „skrýtna“ rafmagnsþríhjólinu sínu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Rafmagnsþríhjólið vekur alls staðar mikla athygli þar sem þau Jean-Rémi og Renuka keyra um á því. Hér eru þau í hringtorginu á Selfossi
Rafmagnsþríhjólið vekur alls staðar mikla athygli þar sem þau Jean-Rémi og Renuka keyra um á því. Hér eru þau í hringtorginu á Selfossi Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hjón í Árborg vekja mikla athygli á vegum þessa dagana því þau voru að kaupa sér rafmagnsþríhjól. Hjólið er með skráningarnúmer eins og önnur ökutæki og kemst upp í 80 kílómetra hraða.

Jean-Remi Chareyre, sem er frá Frakklandi og Renuka Chareyre, sem er frá Sir Lanka og búa í búgarðabyggðinni á milli Selfoss og Eyrarbakka voru að flytja rafmagnsþríhjól frá Hollandi. Þau hlaða hjólið heima hjá sér en það kemst um 100 kílómetra á hleðslunni. Jean, segir þetta eina hjól sinnar tegundar á Íslandi.

„Rafhlaðan er aftur í hjólinu en hún er sjö kílóvött. Það er búnaður í hjólinu, sem að lætur húsið falla til hliðar í átt að beygjunni, þannig að þegar maður beygir þá hallar húsið og verður miklu stöðugra fyrir vikið, annars myndi maður bara velta,“ segir Jean.

Hjólið er fyrir ökumann og farþega og svo er geymsluhólf aftan í því.

En eru hjónin alveg örugg í svona litlu og mjóu farartæki út í umferðinni?

„Já, mér finnst ég vera mjög öruggur. Það er stálgrind og gler utan um, þannig að þetta er miklu öruggara en að vera á mótorhjóli eða vespu,“ segir Jean.

Jean-Rémi Chareyre og Renuka Chareyre sjá ekki eftir því að hafa keypt rafmagnsþríhjólið frá Hollandi og hvetja, sem flest til að kaupa slík hjól því þau séu ódýr og mjög hagkvæm í rekstri.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þríhjólið kostaði um eina og hálfa milljóna króna. Rekstrarkostnaðurinn er lítill sem engin.

„Það kostar 100 krónur að fullhlaða hjólið heima en það kemst 100 kílómetra, þannig að hver kílómetri kostar 1 krónu á móti kílómetra á bensínbíl kostar 20 krónur, þannig að það er 20 sinnum lægri kostnaður á hvern kílómetra.“

Renuka er alsæl aftur í. Hún segir að hjónin fái mikla athygli út á vegunum og margir brosi breitt til þeirra.

„Mér líður mjög vel,“ segir hún hlægjandi og alsæl með nýjasta farartæki heimilisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×