Innlent

Mjaldrarnir við hestaheilsu og fá nýja laug

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Audrey Padgett starfsmaður Sea Life-sjóðsins og framkvæmdastjóri Sædýrasafnsins í Vestmanneyjum með Liltu grá og Litlu hvít.
Audrey Padgett starfsmaður Sea Life-sjóðsins og framkvæmdastjóri Sædýrasafnsins í Vestmanneyjum með Liltu grá og Litlu hvít. Vísir/Bjarni

Sérhannaðri umönnunarlaug hefur verið komið fyrir í Klettsvík í Vestmannaeyjum svo tvær Mjaldrasystur, sem hafa síðustu mánuði verið í innilaug, geti aðlagast náttúrunni betur. 

Mjaldrasysturnar Litla Grá og Litla Hvít hafa nú búið í Vestmannaeyjum í þrjú ár en þær komu hingað frá Sjanghæ í Kína. Þær hafa síðustu mánuði verið í innilaug í Sædýrasafni Vestmanneyja.

Sérstök umönnunarlaug hefur verið hönnuð fyrir systurnar svo þær eigi auðveldara með að aðlagast náttúrulegu umhverfi í sjónum en til stendur að koma þeim endanlega fyrir í Klettsvík í Vestmannaeyjum. Laugin var smíðuð í landi en dráttarbátur dró hana til Vestmannaeyja í vikunni. 

Mjaldrasysturnar hafa áður verið í Klettsvík en Litla Hvít áttu erfitt með að aðlagast lífinu þar og þær fluttu því tímabundið í innilaug í Sædýrasafni Vestmannaeyja.

Audrey Padgett starfsmaður Sea Life-sjóðsins og framkvæmdastjóri Sædýrasafnsins í Vestmanneyjum segir að þeim systrum heilsist vel. 

Mjaldrasysturnar Litla-Hvít og Litla-Grá í Vestmannaeyjum.Vísir/Vilhelm

„Eins og þið sjáið dafna þær mjög vel. Þær bíða aðeins þess að við ljúkum smíðavinnu í Klettsvík. Þær flytja svo aftur í athvarfið strax og vinnu lýkur,“ segir Audrey.

Audrey segir að nú þegar hafi um 20 þúsund manns heimsótt systurnar á hverju ári og vonar að margir komi á næstu mánuðum.

„Ég vona það sannarlega. Það lítur út fyrir fallegt sumar. Takmarkanir á ferðaþjónustunni vegna covid eru að hverfa. Við vonumst því til að bjóða mikinn fjölda fólks hingað í gestamiðstöðina í sumar,“ segir Audrey. 

Það er ekki á hverjum degi sem fréttamaður verður jafn  stjörnustjarfur og þegar hann hitti Mjaldrasysturnar í Vestmannaeyjum.Vísir/Bjarni


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×