Innlent

Domino‘s kostar æfinga­gjöld barna hjá Leikni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Markmiðið er að fjölga iðkendum Leiknis um að lágmarki 50% á samningstímanum.
Markmiðið er að fjölga iðkendum Leiknis um að lágmarki 50% á samningstímanum. Vísir/Hulda Margrét

Domino’s og Leiknir hafa komist að samkomulagi um átaksverkefni þar sem markmiðið er að auka þátttöku barna og unglinga í íþróttastarfi Leiknis með því að gera þátttöku gjaldfrjálsa fyrir börn búsett í Breiðholti gegn nýtingu frístundakorts Reykjavíkurborgar.

Markmið verkefnisins er að fjölga iðkendum um að lágmarki 50% á samningstímanum og lækka þannig hlutfall barna sem eru óvirk í frístundastarfi í hverfinu, en nýting frístundakortsins er lægst í Efra-Breiðholti af öllum hverfum Reykjavíkur.

„Domino’s hefur í rúm 20 ár rekið höfuðstöðvar sínar, þar með talið skrifstofur, þjónustuver og framleiðslu, auk útsölustaðar við Lóuhóla 2-6 í Efra Breiðholti. Í gegnum árin höfum við bundist hverfinu sterkum böndum og notið þess að fá öflugt starfsfólk úr hverfinu og gerum enn,“ segir Magnús Hafliðason, forstjóri Domino’s á Íslandi.

Hann segir að þeim hafi verið kunnugt um þær áskoranir sem eru fyrir hendi í hverfinu hvað varðar þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. 

„Við erum stolt af þessum samningi en með honum vonumst við til þess að styrkja nærumhverfi okkar með beinum hætti og stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi enda hefur slíkt óumdeild jákvæð áhrif á velferð þeirra,“ segir Magnús enn fremur.

Gjaldfrjálst að æfa fyrir 6-16 ára út árið 2023

Átaksverkefnið nær út árið 2023 og nær til barna á aldrinum 6-16 ára sem búsett eru í hverfinu. Sérstök áhersla verður á að miðla upplýsingum um verkefnið á fjölbreyttum tungumálum með það að markmiði að ná til sem flestra fjölskyldna í Efra-Breiðholti. 

Oscar Clausen, formaður Leiknis, segir framtak Domino’s styrkja nærumhverfi þeirra.

„Forganga Domino’s í þessu máli er einsdæmi og öðrum til eftirbreytni. Fyrst og fremst kemur þetta börnum og unglingum í hverfinu til góða og vonumst við til þess að sjá þau hópast á æfingar hjá Leikni.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×