Lífið

Liz Sheridan er látin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Liz Sheridan, hér til hægri, ásamt Barney Martin, sem lék föður Jerry Seinfeld í Seinfeld þáttunum.
Liz Sheridan, hér til hægri, ásamt Barney Martin, sem lék föður Jerry Seinfeld í Seinfeld þáttunum. Dennys/Getty Images)

Leikkonan Liz Sheridan, sem helst er þekkt fyrir að leika móður Jerry Seinfeld í Seinfeld-þáttunum, er látin, 93 ára að aldri.

Sheridan lést í gær að því er fram kemur á vef Variety. 

Sheridan fæddist árið 1929 og átti langan og farsælan feril, ekki síst á Broadway, þar sem hún lék í fjölmörgum leikritum í gegnum tíðina.

Sjónvarpsferill hennar hófst á áttunda áratugnum og lék hún í fjölmörgum þáttum á borð við ALF, Famili Ties og Melrose Place, svo dæmi séu tekin.

Hún var hins vegar best þekkt fyrir hlutverk sitt sem Helen Seinfeld í Seinfeld-þáttunum vinsælu sem framleiddir voru á tíunda áratug síðustu aldar.

Þar lék hún móðir aðalpersónunnar Jerry Seinfeld, sem leikinn var af Jerry Seinfeld, annars skapara og höfunda þáttanna.

Sheridan var með fast gestahlutverk í þáttunum. Lék hún í alls 21 þætti og nefna má að fyrir utan aðalleikarana fjóra, áðurnefndan Seinfeld, Jason Alexander, Julia-Louis Dreyfus og Michael Richards, var hún eini leikarinn sem kom fyrir í öllum þáttaröðunum níu sem framleiddar voru.

Seinfeld minntist Sheridan á Twitter með hlýhug í gær, þar sem hann birti mynd af sjónvarpsmæðginunum.

„Liz var alltaf indælasta og ljúfasta sjónvarpsmamman sem sonur gat óskað sér. Í hvert einasta skipti sem hún kom á settið leið mér vel. Ég er lánsamur að hafa kynnst henni,“ skrifar Seinfeld.

Stutt er síðan Estelle Harris, hin mamman í Seinfeld-þáttunum, móðir persónunnar George Costanza sem leikinn var af Jason Alexander, lést.


Tengdar fréttir

Estelle Har­ris er látin

Leikkonan Estelle Harris, sem er hvað þekktust fyrir að hafa farið með hlutverk móður George Costanza í þáttunum Seinfeld, er látin. Harris lést á heimili sínu í Palm Desert í Kaliforníu á laugardagskvöld af náttúrulegum orsökum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×