Innlent

Furðar sig á að kenni­tölur hafi verið birtar

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Landskjörstjórn segir birtinguna í samræmi við lög og reglugerð um kosningar.
Landskjörstjórn segir birtinguna í samræmi við lög og reglugerð um kosningar. Getty

Landskjörstjórn hyggst birta kennitölur allra frambjóðenda til sveitarstjórnarkosninga opinberlega. Umboðsmaður Garðabæjarlistans setur spurningamerki við birtinguna og hefur sent erindi á Persónuvernd.

Samkvæmt nýrri reglugerð um framboð og meðmæli við sveitarstjórnarkosningar ber að birta kennitölur frambjóðenda í formlegri auglýsingu. Reglugerðin er í samræmi við hin nýju kosningalög en þar kemur beinlínis fram að birta beri kennitölur frambjóðenda.

Kristján Sveinbjörnsson umboðsmaður Garðabæjarlistans furðar sig á birtingunni:

„Þetta klagar svo sem ekki upp á mig og ég hef svo sem ekki heyrt neinn frambjóðanda kvarta. En ég man ekki betur en að menn teldu kennitöluna vera svolítið heilaga þó að þú getir flett þeim upp í heimabanka og svoleiðis. Og ég man ekki betur en það væri óheimilt að dreifa kennitölum,“ segir Kristján.

Landskjörstjórn segir ákvæðið skýrt

Hann segist þó ekki geta fullyrt að birting kennitalna sé óheimil en hefur sent erindi á landskjörstjórn og Persónuvernd til að skera úr um lögmæti birtingarinnar. Lögfræðingur hjá landskjörstjórn segir ákvæðið skýrt. Samkvæmt því beri augljóslega að birta kennitölur frambjóðenda en Persónuvernd hefur ekki svarað spurningum Kristjáns.

„Menn segja kannski að þetta sé svo það fari ekki á milli mála að Jón Jónsson eldri sé í framboði en ekki Jón Jónsson yngri. En þá hefði verið nóg að skrifa bara ártal eða fæðingaraldur – eða birta í versta falli þessar sex tölur þar sem maður sér afmælið – en það er enginn tilgangur að birta þessar seinni tölur,“ segir Kristján.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×