Innlent

Vona að hægt verði að slökkva eldinn í dag: „Við erum bara á fullu“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Flokkunarhúsið þar sem eldurinn kviknaði í gær er nú gjörónýtt. 
Flokkunarhúsið þar sem eldurinn kviknaði í gær er nú gjörónýtt.  Mynd/Helgi Helgason

Slökkviliðsmenn vinna enn að því að ráða niðurlögum eldsins sem kviknaði í flokkunarhúsi í Reykjanesbæ fyrir hádegi í gær. Auka mannskapur hefur verið kallaður inn en varðstjóri segir ómögulegt að segja hvenær slökkvistarfi lýkur.

Slökkviliðsmönnum tókst að slökkva eldinn í húsinu sjálfu í gærdag en eldurinn komst í stóran timburhaug í kjölfarið og hafa slökkviliðsmenn reynt að slökkva þann eld allt síðan í gærkvöldi.

„Það er alveg risa hrúga sem við erum búnir að vera að berjast við, og erum enn þá að berjast. Þetta er bara stórt fjall af trékurli,“ segir Herbert Eyjólfsson, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, í samtali við fréttastofu í morgunsárið.

Herbert segir slökkviliðsmenn á svæðinu nú notast við tvær gröfur til að moka til og frá í hrúgunni en nokkur mannskapur er á svæðinu og tankbíll frá Grindavík. Hann segir ómögulegt að segja til um það hvenær slökkvistarfi lýkur, en vonar að það verði í dag.

„Ég vona að rigningin hjálpi okkur eitthvað en það liggur við eins og það sé olía í rigningunni, þetta bara heldur áfram. En það allavega hjálpar okkur að því það er mikill gróður þarna út í móa fyrir utan þetta svæði,“ segir Herbert en eldurinn virðist ekki vera að breiða úr sér.

Í spilaranum hér fyrir neðan má finna myndskeið sem Víkurfréttir birtu í gærkvöldi af brunanum. 

Reyna að fá fleiri inn

Lögreglan á Suðurnesjum varaði við eitruðum reyk sem lagði yfir svæðið í gær, þegar rusl var að brenna. Að sögn Herberts er enn mikill reykur núna út frá spýtunum og mikil gufa.

„Við erum bara á fullu og við erum að fá auka mannskap fyrir utan vaktina. Við erum að reyna að ná fólki inn til þess að halda áfram en það eru margir búnir að vera alveg rosalega lengi,“ segir Herbert aðspurður um stöðuna hjá liðinu.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.