Innlent

Sex hundar, tveir kettir og fleiri dýr búa í fjöl­býlis­húsi á Eggerts­götu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hundurinn Alfons er mikil félagsvera og var æstur í sjónvarpsviðtal.
Hundurinn Alfons er mikil félagsvera og var æstur í sjónvarpsviðtal. elisabet inga

Í fjölbýli á Eggertsgötu búa að minnsta kosti sex hundar og tveir kettir. Þeir búa með eigendum sínum á háskólasvæðinu sem hafa tengst vináttuböndum vegna dýranna.

Í Laugardalnum má finna Húsdýragarðinn en á Eggertsgötu má finna Dýragarða eftir að Félagsstofnun stúdenta leyfði dýrahald í nokkrum fjölbýlishúsum. Á myndbandinu má sjá að fyrir aftan fréttamann búa að minnsta kosti sex hundar, tveir kettir og fleiri dýr.

Námsmenn við Háskóla Íslands hafa lengi kallað eftir því að dýrahald verði leyft á stúdentagörðunum. Félagsstofnun stúdenta tók af skarið og opnaði svokallaðan Dýragarð í einu húsanna fyrir tveimur árum en nýlega bætti stofnunin einni byggingu við.

Hér fyrir ofan má sjá dýrin sem búa á dýragörðum. Einn af íbúum dýragarða er Alfons sem var heldur betur spenntur fyrir sjónvarpsviðtali og vildi ólmur tjá sig um lífið á görðunum.

Eigendur Alfons segja að eftir að dýrahald var leyft hafi skapast mikið líf í fjölbýlishúsinu og nágrannarnir kynnst betur.

„Já heldur betur. Ég þekkti ekki alla sem bjuggu í byggingunni en nú þekki ég alla sem eiga hund,“ sagði Markús Leví Stefánsson, nemi við Háskóla Íslands og eigandi Alfons.

Mikill félagsskapur

Dýrin njóta einnig góðst af félagsskap hvers annars.

„Þeir leika mjög mikið saman allir hundarnir. Svo er alla vegana einn köttur sem kemur reglulega á gluggann hjá okkur og kíkir inn. Þá fara þeir í störukeppni,“ sagði Emilía Björt Írisardóttir, nemi við Háskóla Íslands og eigandi Alfons.

„Það er auðvitað krefjandi að ala upp hvolp samhliða námi en það er svo æðislegt að hafa aðeins afsökun til þess að stíga aðeins út og labba aðeins með þennan ólátabelg,“ sagði Markús.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×