Menning

Ragnar lenti í fárviðri á slóðum Shackleton og þurfti að binda sig við þilfarið

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnar Axelsson ljósmyndari rifjar upp sjávarháska Shackletons og eigið ævintýri á sömu slóðum í nýjasta þættinum af RAX Augnablik.
Ragnar Axelsson ljósmyndari rifjar upp sjávarháska Shackletons og eigið ævintýri á sömu slóðum í nýjasta þættinum af RAX Augnablik. RAX

Í ferð sinni til Suðurskautsins sigldi Ragnar Axelsson sömu leið og breski heimskautafarinn Sir Ernest Shackleton. Vísindamenn fundu flak skip hans Endurance, í síðasta mánuði, 107 árum eftir að það sökk. Flakið fannst á botni Weddel-hafs, undan ströndum Suðurskautslandsins, og þykir fundurinn einn sá merkasti í sögunni.

„Hann var næstum því fyrstur á Suðurpólinn en hann sneri við þegar hann sá að hann hafði ekki mat og vistir til að komast til baka. Hann þurfti að bjarga mönnunum sínum,“

rifjar RAX upp í nýjasta þættinum af RAX Augnablik. Shackleton sigldi á björgunarbát til þess að sækja björgun fyrir áhöfn sína sem hafðist við á Fílaeyju eftir að skip þeirra brotnaði og sökk í sjóinn eftir að hafa setið fast í hafís í níu mánuði. 

Ljósmyndarinn lenti sjálfur í fárviðri á leiðinni líkt og Shackleton gerði rúmum hundrað árum fyrr. Hann þurfti að binda sig fastan á þilfarinu til þess að ná myndum af samskonar háska og Shackleton og föruneyti lentu í á þessum fræga leiðangri. 

„Þegar ég sigldi þessa leið, þá hugsaði ég stanslaust um hvernig hún hefði verið. Þetta er eitt versta sjólag á jörðinni.“

Þáttinn Sjávarháski Shackletons má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru örþættir og birtast á Vísi og Stöð 2+ alla sunnudaga. 

Klippa: RAX Augnablik - Sjávarháski Shackletons

Ævintýraheimur á Suðurskautinu

Árið 2010 heimsótti fyrrum forsætisráðherra Frakklands, Michel Rocard, Ísland. Hann heillaðist af myndum Ragnars og bauð honum með sér í ferð á Suðurskautið. Fjallað var um það í síðasta þætti af RAX Augnablik sem má sjá hér fyrir neðan. 

Dýralífið á Suðurskautinu fangaði hug Ragnars en hann komst í návígi við mörgæsir og seli og náði af þeim einstökum myndum, meðal annars þar sem forsætisráðherrann fyrrverandi rökræddi við mörgæsirnar.

Í þáttunum RAX Augnablik segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2+. 

Hægt er að sjá alla þættina hér á Vísi.


Tengdar fréttir

„Þegar hann talaði þá hlustuðu allir“

Michel Rocard, fyrrum forsætisráðherra Frakklands, heimsótti Ísland árið 2010 og heillaðist þar af myndum Ragnars Axelssonar á sýningu í Gerðarsafni. Hann ákvað í kjölfarið að bjóða RAX með sér í ferð á Suðurskautið.

Svona er lífið í 53 stiga frosti í köldustu borg heims

Fyrir nokkrum árum var Ragnar á ferð í Yakutiu í Síberíu, en ríkið er þekkt fyrir miklar öfgar í hita og kulda. Höfuðborg ríkisins, Yakutsk, er kaldasta borg heims, og Ragnar vildi skrásetja lífið í kuldanum í borginni og á túndrunni í nágrenni borgarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×