Alþjóðleg dómnefnd, skipuð sjö aðilum, hafði helmingsvægi gagnvart símakosningu almennings í fyrri kosningu kvöldsins. Eftir fyrri kosninguna fór lag Reykjavíkurdætra í einvígi við þær Siggu, Betu og Elínu.
Í einvíginu gátu áhorfendur aðeins kosið á milli þeirra tveggja laga. Atkvæðin úr fyrri kosningu, frá dómnefnd og símakosningu áhorfenda eru lögð saman og stigahæsta lag kvöldsins varð lag systranna því framlag Íslands í Eurovision á Ítalíu í maí.
Í úrslitum í kvöld komu fimm lög til álita:
Katla – Þaðan af
Amarosis – Don‘t You Know
Reykjavíkurdætur – Turn This Around
Stefán Óli – Ljósið
Sigga, Beta og Elín – Með hækkandi sól
Eftir símakosningu og kosningu alþjóðlegu dómnefndarinnar lá niðurstaðan fyrir: annaðhvort Reykjavíkurdætur eða systurnar Sigga, Beta og Elín. Þjóðin fékk þá tækifæri til að kjósa milli laganna tveggja og ekki leið á löngu þar til úrslit lágu fyrir.
„Mér líður svo vel ég er að springa, bara takk, takk, takk,“ sagði Beta Eyþórsdóttur við Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur sem var meðal kynna keppninnar. Sigga bætti þá við:
„Við erum bara í einhverju sjokki. Sjáðu hverja við vorum að keppa við!“

Mikil spenna hefur verið fyrir keppninni síðustu vikur og þegar fréttastofa náði tali af kynnum keppninnar fyrr í kvöld sögðu þau að það væri búið að líma þakið á höllina; þau bjuggust við því að það myndi lyftast. Allt getur gerst í beinni útsendingu og Björgu Magnúsdóttur, sem var ein kynna, varð á í beinni og missti út úr sér óheppilegan brandara, sem hún síðar baðst afsökunar á.
Katla, sem flutti lagið Þaðan af, ræddi föður sinn í innslaginu fyrir flutninginn en hann lést árið 2018. Katla bjó til hálsmen úr giftingarhring föður sinnar, sem hún bar í kvöld:„Ég bjó þetta til, þetta er giftingarhringurinn hans þannig hann er alltaf með,“ sagði hún. Björg svaraði þá á móti: „Hún er að reyna að fá atkvæði út á þetta, nei ég segi svona.“
Björg baðst síðan innilegrar afsökunar stuttu síðar:
„Mig langaði bara frá mínum dýpstu hjartarótum að segja afsakið og fyrirgefðu innilega Katla fyrir ósmekklegan brandara sem ég missti út úr mér áðan. Mér finnst það mjög leiðinlegt, að hafa sagt þetta. Þetta getur víst gerst í beinni útsendingu en þá er bara gott að segja fyrirgefðu. Ég er búin að segja það við hana og málinu er lokið.“