Tónlist

Norrænu sjónvarpsstöðvarnar vilja Rússland úr Eurovision

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Bílalest Rússa á Krímskaga.
Bílalest Rússa á Krímskaga. Vísir/AP

Forsvarsmenn norrænu sjónvarpsstöðvanna sem taka þátt í Eurovision keppninni vilja að Rússlandi verði vísað úr keppninni í ár vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Forsvarsmennirnir hafa verið í sambandi við EBU og lagst gegn því að Rússar fái að vera á meðal þátttakenda í keppninni sem fer fram á Ítalíu í maí. 

„Við höfum verið í samskiptum við kollega okkar á Norðurlöndunum sem deila áhyggjum okkar af stöðu mála í Úkraínu. Það er mat okkar allra að það gangi ekki upp að Rússar taki þátt í Eurovision við þessar aðstæður,“ er haft eftir Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra á vef RÚV

Í gær var tilkynnt að Rússland fengi að taka þátt í Eurovision þrátt fyrir innrásina. Skipuleggjendur segja að keppnin sé „ópólitískur menningarlegur viðburður“ og segja ekki koma til greina að Rússlandi verði bannað að taka þátt í keppninni.

Rússar munu fá að taka þátt í Eurovision í ár þrátt fyrir innrás í Úkraínu.Getty/Dean Mouhtaropoulos

„Eurovsion er ópólitískur menningarlegur viðburður sem sameinar þjóðir og fagnar fjölbreytileika með tónlist. Meðlimir Evrópsku sjónvarpsstöðvanna bæði í Rússlandi og Úkraínu hafa heitið því að taka þátt í keppninni í Tórínó og við ætlum, eins og staðan er núna, að bjóða listamenn frá báðum löndum velkomna í maí,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu Evrópusku sjónvarpsstöðvanna.

Stefán telur ekki tímabært að svara því hvort Ísland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur eða Finnland dragi sig úr keppni fái Rússar að taka þátt.

„Ég hef fulla trú á því að EBU taki á þessu af festu og ábyrgð.“


Tengdar fréttir

Vaktin: Hart barist í Kænugarði

Loftárásir Rússa hófust aftur klukkan fjögur í nótt að staðartíma í Úkraínu. Nú er sólarhringur liðinn síðan Rússar hófu allsherjarinnrás í Úkraínu og talið er að tæplega 140 Úkraínumenn hafi fallið í átökunum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×