Lífið

Söngvarinn Mark Lanegan er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Mark Lanegan á tónleikum í Lille í Frakklandi árið 2019.
Mark Lanegan á tónleikum í Lille í Frakklandi árið 2019. Getty

Bandaríski söngvarinn Mark Lanegan, sem var forsprakki sveitarinnar Screaming Trees og var um tíma liðsmaður Queens of the Stone Age, er látinn, 57 ára að aldri.

Greint var frá því á Twitter-síðu söngvarans að hann hafi látist á heimili sínu í Killarney á Írlandi.

Á ferli sínum starfaði Lanegan með tónlistarmönnum á borð við Kurt Cobain, PJ Harvey, Isobel Campbell og Moby.

Lanegan var inniliggjandi á sjúkrahúsi um margra mánaða skeið eftir að hafa fengið Covid-19 og var um tíma haldið sofandi í öndunarvél. Ekki hafa þó verið gefnar upp upplýsingar um hvað hafi dregið Lanegan til dauða.

Lanegan fæddist í Washington-ríki árið 1964 og gekk til liðs við Screaming Trees á níunda áratugnum. Sveitin gaf út átta breiðskífur áður en hún hætti störfum um aldamótin.

Hann gekk svo til liðs við Queens of the Stone Age árið 2000 þar sem hann söng og skrifaði nokkur lög á plötunni Rated R og sömuleiðis plötunni Songs for the Deaf.

Árið 2020 gaf hann út æviminningar sínar, Sing Backwards and Weep, þar sem hann fjallaði um ævintýralegt lífslaup sitt og vináttu við menn á borð við Nirvana-söngvarann Kurt Cobain og Alice in Chains-söngvarann Layne Staley.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×