Sport

Réðu þjálfara sem stendur í málaferlum við deildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Brian Flores hefur verið ráðinn varnarþjálfari Pittsburgh Stellers í NFL-deildinni í amerískum fótbolta.
Brian Flores hefur verið ráðinn varnarþjálfari Pittsburgh Stellers í NFL-deildinni í amerískum fótbolta. Mark Brown/Getty Images

Brian Flores hefur verið ráðinn varnarþjálfari Pittsburgh Steelers í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, en Flores kærði deildina fyrr í mánuðinum fyrir kynþáttamismunun.

Þessi fertugi þjálfari var rekinn frá Miami Dolphins í byrjun janúar þrátt fyrir frækinn sigur gegn New England Patriots deginum áður. Flores var aðalþjálfari Miami-liðsins.

Flores kærði síðan NFL-deildina, New York Giants, sem og öll önnur lið innan deildarinnar vegna kynþáttamismununar í ráðningarferlinu.

Litið var framhjá Flores þegar ráðið var í stöðu þjálfara hjá New York Giants og hann segir að deildin og eigendur hennar reki fyrirtækið eins og plantekru. Deildin og liðin innan hennar hafa hins vegar þvertekið fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar.

Flores hefur nú hins vegar loksins verið ráðinn í starf og Mike Tomlin, aðalþjálfari Pittsburgh Steelers, segist hlakka til að vinna með Flores.

„Ferilskráin hans talar sínu máli,“ sagði Tomlin. „Ég hlakka til að fá hann í teymið og bæta hans sérfræðiþekkingu við liðið.“

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×