Innlent

Björg­vin Páll veltir borgar­stjóra­stólnum fyrir sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgvin Páll er einn af silfurdrengjum Íslands frá því í Peking 2008.
Björgvin Páll er einn af silfurdrengjum Íslands frá því í Peking 2008. Vísir/Hulda Margrét

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska karlalandsliðsins í handbolta, veltir fyrir sér hvort hann vilji verða borgarstjóraefni Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hann spyr sjálfan sig og aðra: Er ég efni í næsta borgarstjóra í Reykjavík?

Björgvin greinir frá því á Facebook að kvöldið sem hann lenti á Íslandi eftir Evrópumótið í handbolta hafi hann fengið símtal frá þjóðþekktum einstaklingi sem hann beri mikla virðingu fyrir. Ekki kemur fram um hvern ræðir en ekki náðist í Björgvin við vinnslu fréttarinnar.

„Samtalið hófst á því að greina EM á methraða og ræða aðeins um veiruna skæðu en það var ekki eini tilgangur símtalsins. Hann var nefnilega líka að skora á mig að bjóða mig fram sem borgarstjóraefni í Reykjavík. Þessi maður þekkir vel til minnar ástríðu fyrir málefnum barna og vildi sjá mig taka slaginn enda þyrfti að taka borgina og snúa við málum þar. Það skrýtna er að þessi hugmynd hljómaði einhverra hluta vegna ekki svo galin og ég er virkilega hrærður yfir þeirri trú sem þessi góði vinur hefur á mér,“ segir Björgvin.

Vill bæta skólakerfið

Hausinn hafi farið á fullt og hann hugsað af hverju viðkomandi héldi að hann gæti orðið góður borgarstjóri.

„Gæti það verið vegna minnar sýnar á hvernig má auka vellíðan barna, bæta skólakerfin okkar og hlúa betur að foreldrum. Eða var það mín saga og mín reynsla sem fékk hann til þess að velta þessari hugmynd upp. Því meira sem ég hugsa þetta því meiri trú hef ég á því að þetta gæti smollið. Minn tilgangur í lífinu er að vera góð fyrirmynd og auka vellíðan en síðustu vikur og mánuði hef ég velt því mikið fyrir mér hvert sé næsta skref hjá mér í að hafa sem mest áhrif.“

Hans mesti drifkraftur liggi í að auka vellíðan og snúa við slæmri þróun þegar komi að börnunum.

„Með hvaða hætti get ég gert sem mest gagn? Með því að halda áfram að fara inn í skólana og segja mína sögu? Með því að berjast fyrir mínum hugmyndum er kemur að hvernig má bæta skólakerfið okkar í heild sinni?“ spyr Björgvin.

Hann sé ekki bara handboltakall.

Beit kennarann og dúxaði í bakaranum

„Ég er líka 6 ára strákurinn sem beit kennarinn minn, 8 ára strákurinn sem var tekin með hníf í skólanum og lagðir inná BUGL, 12 ára strákurinn sem fékk umsögn í sveit um að ég væri barn sem erfitt væri að elska, 13 ára strákurinn sem heyrði kennarann minn segja „Hann verður aldrei neitt þessi”, strákurinn sem skólakerfið brást, strákurinn sem fékk aldrei greininguna mína og lyfin mín, ég er strákurinn sem ólst upp við erfiðar aðstæður, strákurinn sem íþróttirnar björguðu, ég er iðnstúdentinn og bakarinn sem dúxaði, ég er stúdentinn sem náði sér í viðskiptafræðimenntun og stofnaði fyrirtæki, ég er einkaþjálfarinn og íþróttaþjálfarinn sem varð heltekinn af líkamlegri og andlegri heilsu, ég er atvinnumaðurinn í handknattleik sem lék erlendis í 11 ár í þremur löndum, ég er landsliðsmaðurinn sem hefur tekið þátt í ótrúlegu ferðalagi landsliðs síðustu 19 ár, ég er pabbinn og eiginmaðurinn sem hef verið greindur með ADHD, kvíðarösku, heilaáverka, vefjagigt og fylgigigt, ég fyrirmyndin sem hef síðustu ár unnið með börnum bæði innan skólakerfisins og utan þess.“

Björgvin segist þó ekki vita hvort hann sé efni í næsta borgarstjóra í Reykjavík.

„Ef ég tæki slaginn þá væri það einna helst til þessa að taka þátt í byltingu er kemur að málefnum barna. Það að merkja X við B, fyrir Björgvin og börnin er eitthvað sem hljómar allavega vel.“

Framsókn fékk 1870 atkvæði í Reykjavík í kosningunum 2018, var níundi stærsti flokkurinn í þeim kosningum og fékk engan mann kjörinn. 

Aðalsteinn Sverrisson, formaður Framsóknarfélagsins í Reykjavík, segir í samtali við Vísi að hann hafi ekki heyrt af þessu fyrr en hann las færslu Björgvins. 

Aðalsteinn Sverrisson er spenntur að fá Björgvin til liðs við flokkinn í borginni.Framsókn

„Þetta er mjög flott. Björgvin Páll er mjög frambærilegur,“ segir Aðalsteinn. Hann segir Björgvin hafa verið í flottu hlutverki í kosningabaráttunni í Alþingiskosningunum í haust og stutt vel við bakið á flokknum.

„Þetta gæti verið mjög blessunarlegt.“

Framboðsfrestur hjá Framsókn í borginni er til 7. febrúar. Valið er í höndu uppstillingarnefndar sem mun kynna lista á aukakjördæmaþingi þann 10. mars.

„Við stefnum náttúrulega á að ná góðum árangri í borginni, það er klárt mál.“

Færsla Björgvins í heild

Kvöldið sem ég lennti á Íslandi eftir EM fékk ég símtal frá þjóðþekktum einstaklingi sem ég ber mikla virðingu fyrir. Samtalið hófst á því að greina EM á methraða og ræða aðeins um veiruna skæðu en það var ekki eini tilgangur símtalsins. Hann var nefnilega líka að skora á mig að bjóða mig fram sem borgarstjóraefni í Reykjavík. Þessi maður þekkir vel til minnar ástríðu fyrir málefnum barna og vildi sjá mig taka slaginn enda þyrfti að taka borgina og snúa við málum þar. Það skrýtna er að þessi hugmynd hljómaði einhverra hluta vegna ekki svo galin og ég er virkilega hrærður yfir þeirri trú sem þessi góði vinur hefur á mér.

Hausinn fór eðlilega á fullt og ég hugsaði afhverju viðkomandi héldi að ég gæti orðið góður borgarsjtjóri. Gæti það verið vegna minnar sýnar á hvernig má auka vellíðan barna, bæta skólakerfin okkar og hlúa betur að foreldrum. Eða var það mín saga og mín reynsla sem fékk hann til þess að velta þessari hugmynd upp. Því meira sem ég hugsa þetta því meiri trú hef ég á því að þetta gæti smollið. Minn tilgangur í lífinu er að vera góð fyrirmynd og auka vellíðan en síðustu vikur og mánuði hef ég velt því mikið fyrir mér hvert sé næsta skref hjá mér í að hafa sem mest áhrif.

Minn mesti drifkraftur liggur í að auka vellíðan og snúa við þessari slæmu þróun þegar kemur að börnunum okkar, þeirra vanlíðan allri og ég hefði óskað þess að þakið hefði verið lagað áður en það var byrjað að rigna. En það er samt ekki of seint... eins og Frederick Douglass orðaði það “It is easier to build strong children than to repair broken adults.” Með hvaða hætti get ég gert sem mest gagn? Með því að halda áfram að fara inn í skólana og segja mína sögu? Með því að berjast fyrir mínum hugmyndum er kemur að hvernig má bæta skólakerfið okkar í heild sinni?

Ég er ekki bara handboltakall, ég er líka 6 ára strákurinn sem beit kennarinn minn, 8 ára strákurinn sem var tekin með hníf í skólanum og lagðir inná BUGL, 12 ára strákurinn sem fékk umsögn í sveit um að ég væri barn sem erfitt væri að elska, 13 ára strákurinn sem heyrði kennarann minn segja „Hann verður aldrei neitt þessi”, strákurinn sem skólakerfið brást, strákurinn sem fékk aldrei greininguna mína og lyfin mín, ég er strákurinn sem ólst upp við erfiðar aðstæður, strákurinn sem íþróttirnar björguðu, ég er iðnstúdentinn og bakarinn sem dúxaði, ég er stúdentinn sem náði sér í viðskiptafræðimenntun og stofnaði fyrirtæki, ég er einkaþjálfarinn og íþróttaþjálfarinn sem varð heltekinn af líkamlegri og andlegri heilsu, ég er atvinnumaðurinn í handknattleik sem lék erlendis í 11 ár í þremur löndum, ég er landsliðsmaðurinn sem hefur tekið þátt í ótrúlegu ferðalagi landsliðs síðustu 19 ár, ég er pabbinn og eiginmaðurinn sem hef verið greindur með ADHD, kvíðarösku, heilaáverka, vefjagigt og fylgigigt, ég fyrirmyndin sem hef síðustu ár unnið með börnum bæði innan skólakerfisins og utan þess.

En er ég efni í næsta borgarstjóra í Reykjavík? Ég hreinlega veit það ekki... Ef ég tæki slaginn þá væri það einna helst til þessa að taka þátt í byltingu er kemur að málefnum barna. Það að merkja X við B, fyrir Björgvin og börnin er eitthvað sem hljómar allavega vel.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×