Innlent

Starfs­manna­lög gilda um ríkis­endur­skoðanda, óháð þrí­skiptingu ríkis­valdsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í minnisblaðinu segir að líta beri á samþykki Skúla Eggerts um flutning í embætti ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands sem ósk um starfslok sem ríkisendurskoðandi.
Í minnisblaðinu segir að líta beri á samþykki Skúla Eggerts um flutning í embætti ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands sem ósk um starfslok sem ríkisendurskoðandi. Vísir

Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins taka til embættis ríkisendurskoðanda og til starfsmanna ríkisins almennt, án tillits til þess geira ríkisvalds sem þeir starfa í þjónustu fyrir.

Þetta segir í minnisblaði skristofu Alþingis til forseta Alþingis, þar sem fjallað er um þá gagnrýni sem fram hefur komið á flutningi Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisendurskoðanda í embætti ráðuneytisstjóra í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Gagnrýnin byggist meðal annars á því að ákvæði fyrrnefndra starfsmannalaga um flutning embættismanna eigi ekki við um ríkisendurskoðanda, sem sé kosinn af Alþingi, og flutningur hans samræmist ekki sjónarmiðum um þrískiptingu ríkisvaldsins.

„Í minnisblaði þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort almennt sé heppilegt að embættismaður sem kjörinn er af Alþingi til þess að gegna trúnaðarstörfum á þess vegum sé fluttur í embætti er heyrir undir ráðherra að skipa í,“ segir í minnisblaðinu.

Hins vegar taki starfsmannalög til ríkisendurskoðanda og einstök ákvæði þeirra séu ekki undanskilin þegar hann á í hlut.

„Starfsmannalög geyma almenn ákvæði og ganga sérákvæði laga um ríkisendurskoðanda því framar hvað varðar kosningu ríkisendurskoðanda í stað skipunar hans líkt og almennt er kveðið á um með embættismenn sem skipaðir eru af ráðherra,“ segir í minnisblaðinu.

Heimild til að flytja Skúla Eggert á milli embætta byggi á 36. grein starfsmannalaga um heimild til að flytja starfsmenn á milli en tilgangur heimildarinnar sé að auka hreyfanleika embættismanna. Heimildin taki jafnt til flutnings í almennt starf eða embætti og byggi á samþykki eða ósk hlutaðeigandi embættismanns.

„Loks ber að líta á samþykki Skúla Eggerts um flutning í embætti ráðuneytisstjóra í Stjórnarráði Íslands sem ósk um starfslok með sambærilegum hætti og þegar embættismaður biðst lausnar frá embætti sínu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.