Innlent

Fordæmi fyrir skjálfta upp á 5,5 á hrinusvæði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Um 550 skjálftar hafa mælst í yfirstandandi skjálftahrinu vestan við Ok í Borgarfirði. 
Um 550 skjálftar hafa mælst í yfirstandandi skjálftahrinu vestan við Ok í Borgarfirði.  Veðurstofa Íslands

Stóri skjálftinn sem reið yfir laust eftir miðnætti vestan við Ok í Borgarfirði er sá stærsti sem mælst hefur í árafjöld, en hann mældist 3,7 að stærð. Fordæmi er fyrir skjálfta upp á 5,5 á svæðinu en hann varð í námunda við það svæði sem undir er í yfirstandandi hrinu.

Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að hrinan sé um margt sérstök. Um innflekaskjálfta sé að ræða þar sem staðsetning þeirra sé utan flekaskila og eldvirkra svæða. Innflekaskjálftar geta orðið vegna láréttrar tognunar í jarðskorpunni.

„Þessi skjálfti sem varð í nótt er stærsti í þessari hrinu og jafnframt stærsti skjálftinn á þessu svæði í dágóðan tíma. Síðast var skjálftahrina á svæðinu árið 1974 en þá mældust stærri skjálftar, meðal annars 5,5 að stærð þannig að það eru dæmi um aðeins stærri skjálfta en við sáum í nótt.“

Umræddur skjálfti sem Einar vísar í varð aðeins norðar en það svæði sem undir er í yfirstandandi hrinu. Frásagnir eru um grjóthrun og lítilsháttar sprungur og skemmdir eftir þann stóra árið 1974.

„Skjálftahrinan stóð yfir í meira en tvo mánuði og við erum komin í um það bil mánuð með þessa hrinu þannig að hún gæti haldið eitthvað áfram.“

Einar Bessi segist alls ekki vilja vekja ugg hjá fólki með því að minnast á stóra skjálftann frá 1974 en hann sé þó ágætis áminning um stærri skjálftar gætu orðið í þessari hrinu og því alltaf gott að fara að öllu með gát.

Jarðskjálftahrinan hófst seinni hluta desembermánaðar og stendur enn. Um 550 skjálftar hafa mælst á svæðinu frá upphafi hrinu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×