Sport

Friðrik Ingi: Varnarleikurinn var til fyrirmyndar

Andri Már Eggertsson skrifar
Friðrik Ingi á hliðarlínunni.
Friðrik Ingi á hliðarlínunni. Vísir/Bára Dröfn

ÍR valtaði yfir Keflavík og vann 17 stiga sigur 77-94. Þetta var þriðji sigur ÍR-inga í röð og var Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari ÍR, afar ánægður með sigurinn.

„Við mættum með gott hugarfar og vorum tilbúnir að gefa sjálfum okkur tækifæri til þessa að gera eitthvað af viti. Varnarleikurinn í seinni hálfleik og samvinnan var til fyrirmyndar,“ sagði Friðrik Ingi ánægður eftir leik.

Eftir 1. leikhluta höfðu aðeins tveir leikmenn ÍR skorað og var Friðrik ánægður með samvinnuna í liðinu eftir fyrsta fjórðung. 

„Það var gott traust milli manna sem sást í varnarleiknum svo fengum við góðar sóknarlotur inn á milli líka. Þetta var frábær liðsvinna og góður sigur.“ 

Friðrik Ingi var afar stoltur af vörninni í seinni hálfleik og mætti segja að það sé mikið afrek að halda Keflavík í 28 stigum á tuttugu mínútum.

„Það er ákveðið afrek, þú heldur ekki Keflavík í 28 stigum í einum hálfleik á hverjum degi. Varnarleikurinn var mjög góður, vörnin hefur verið að lagast undanfarið til hins betra.“

„Okkur tókst að vera í sendingarlínunum þeirra og trufla þá með að slá í boltann og vera fyrir. Þeir eru gott lið í ákveðnum takti en okkur tókst að koma þeim úr því sem þeir vilja gera og eru góðir í,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson að lokum. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.