Innlent

Sig­ríður Björk leiðir starfs­hóp um for­varnir gegn kyn­ferðis­brotum og kyn­bundnu of­beldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigríður Björk ríkislögreglustjóri mun leiða hópinn.
Sigríður Björk ríkislögreglustjóri mun leiða hópinn. Vísir/Vilhelm

Innanríkisráðherra hefur falið Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra að fara fyrir starfshópi sem fjalla muni um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins en þar segir að hópnum verði jafnframt falið það verkefni að styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þar á meðal í formlegri þjónustu við þolendur kynferðisbrota. Starfshópurinn muni einnig standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu.

Fram kemur í tilkynningunni að kærum til lögreglu vegna kynferðisbrota hafi fjölgað um 24 próent á milli áranna 2020 og 2021. Þá hafi heimilisofbeldismál af hendi maka eða fyrrverandi maka aldrei verið fleiri en síðustu tvö ár samkvæmt málaskrá lögreglu, eða í kring um 750 talsins bæði árin. 

„Til þess að ná alvöru tökum á kynferðisbrotum verður að virkja samfélagið. Við berum öll ábyrgð á að uppræta það mein sem kynferðisbrot og kynbundið ofbeldi er í íslensku samfélagi. Best væri ef brotin ættu sér aldrei stað og virkar forvarnir og vitundarvakning eru lykilþættir í að stuðla að því,“ er haft eftir Jóni Gunnarssyni, innanríkisráðherra, í tilkynningunni.

Áhrifaríkustu aðferðirnar í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi séu virkar forvarnir, vitundarvakning og þróun á þverfaglegri samvinnu lögreglu við aðra lykilaðila. Í vinnu starfshópsins verði hugað sérstaklega að viðkvæmum hópum fólks sem reynslan hafi sýnt að séu í meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. 

Aðrir fulltrúar í starfshópnum eru Guðfinnur Sigurvinsson verkefnastjóri, Hildur Sunna Pálmadóttir frá dómsmálaráðuneytinu og Eygló Harðardóttir hjá embætti ríkislögreglustjóra. Starfshópurinn hefur þegar tekið til starfa og er skipunartími hans til 31. desember 2022. Hópnum er gert að skila reglulegum áfangaskýrslum til ráðherra, ásamt lokaskýrslu um árangur af störfum hópsins í desember næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×