Enski boltinn

Arteta: Okkur skorti gæði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að liðinu hafi skort gæði til að vinna gegn Burnley í dag.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að liðinu hafi skort gæði til að vinna gegn Burnley í dag. Julian Finney/Getty Images

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var svekktur með markalaust jafntefli sinna manna gegn Burnley í dag. Hann segir að leikmenn liðsins hafa virkað þreyttir og að liðinu hafi skort gæði á seinasta þriðjungi vallarins.

„Við vorum hægir til að byrja með. Við virkuðum þreyttir og fundum ekki taktinn til að sækja eins við hefðum viljað,“ sagði Arteta að leik loknum.

„Svo byrjuðum við að spila betur, fundum taktinn og ógnuðum markinu meira og komum svo eins og allt annað lið út í seinni hálfleikinn.“

Þrátt fyrir að Arsenal-liðið hafi fundið taktinn eins og Arteta segir, komu þeir boltanum ekki í netið. Hann segir að lið þurfi sköpunargáfu til að spila á móti liði sem liggjur jafn djúpt og Burnley gerir.

„Við reyndum eins og við gátum en okkur skorti gæði á seinasta þriðjungi vallarins. Þegar þú spilar á móti liðið sem liggur jafn djúpt og Burnley þarftu að finna einhvern neista til að skapa færi til að vinna leikinn, en við gerðum það ekki í dag.“

„Þetta er það sem Burnley gerir, þeir vilja spila hægan leik. Þetta tekur langan tíma, en þetta er þeirra leikur og við verðum að bera virðingu fyrir því.“

Arsenal hefur ekki enn unnið leik á árinu sem nú er nýhafið, og Arteta segir að liðið þurfi að fara að skora mörk og fá leikmenn til baka úr meiðslum og veikindum til að breyta því.

„Við þurfum að fara að skora mörk og fá leikmenn til baka. Seinustu fjórar vikur hefur verið mjög erfitt að manna æfingar og stilla upp í lið af því að það eru svo margir meiddir eða smitaðir af kórónuveirunni,“ sagði Arteta að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×