Innlent

Líkir mynd­­birtingu Sigurðar G við áður séða þöggunar­til­burði

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir segir mynd af Vítalíu Lazarevu, sem Sigurður G. Guðjónsson kveðst ekki kannast við, líkjast þöggunartilburðum.
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir segir mynd af Vítalíu Lazarevu, sem Sigurður G. Guðjónsson kveðst ekki kannast við, líkjast þöggunartilburðum. Vísir/Samsett

Hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson tekur fyrir að hafa birt mynd af Vítalíu Lazarevu hjá sér á Facebook. Myndina var þó að finna á Facebook-síðu hans í morgun. Talskona Stígamóta segir myndbirtinguna líkjast þöggunartilburðum.

Vítalía, sem hefur sakað þjóðþekkta menn um kynferðisofbeldi, vakti sjálf athygli á mynddeilingunni á Twitter og furðaði sig á því að Sigurður, sem hún segist ekkert þekkja, hafi birt af henni mynd á Facebook. Hún hafi á myndinni verið að ganga inn á fund með sínum eigin lögmanni. 

„Það er náttúrulega mjög íþyngjandi að upplifa það að það sé verið að fylgjast með manni. Sérstaklega ef maður er hræddur við aðilann sem kann að vera að fylgjast með manni eða senda einhvern til að fylgjast með manni,“ segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta.

Í samtali við fréttastofu fyrr í dag sagðist Sigurður ekki kannast við að hafa birt myndina á Facebook og sagðist heldur ekki hafa verið á staðnum þegar myndin var tekin. Í morgun mátti þó sjá myndina á Facebook-síðu Sigurðar. Sigurður fjarlægði myndina af Facebook eftir hádegi í dag. 

„Það er kannski erfitt að festa fingur á það nákvæmlega, hvað þetta er, en í öllu falli finnst mér þetta líkjast mjög ýmsum þöggunartilburðum sem við höfum áður séð,“ segir Steinunn.

Við það bætist að meintir gerendur í málinu séu allir valdamiklir menn.

„Ég held að það sé alveg aukalag af ótta sem fylgir því að stíga fram gegn mjög valdamiklum mönnum sem eru í allt annarri stöðu en brotaþoli.“

Sigurður hefur áður verið á milli tannanna á fólki vegna umdeildrar Facebook-færslu þar sem hann birti ljósmyndir af skýrslum lögreglu af Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur, sem sakaði Kolbein Sigþórsson knattspyrnumann um ofbeldi.

„Það er óhjákvæmilegt að setja það í samhengi við það sem sami maður hefur gert áður, þar sem hann birtir lögregluskýrlsur brotaþola opinberlega á Facebook.“

Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélags Íslands, segir í samtali við fréttastofu að félaginu hafi borist athugasemdir í dag vegna málsins sem það muni taka til skoðunar. 


Tengdar fréttir

Vill ekki kannast við myndina sem hann birti af Vítalíu

Hæstaréttarlögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson segist ekki hafa tekið mynd af Vítalíu Lazarevu og birt í „story“ hjá sér á Facebook. Myndina var þó að finna á Facebook-síðu hans í morgun. Vítalía hefur sakað nafntogaða og þjóðþekkta menn um kynferðisofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.