Heilbrigðisráðherra tilkynnti í morgun að samkomutakmarkir yrðu hertar á miðnætti. Tíu mega almennt koma saman í samfélaginu, börum verður lokað og aftur verður ráðist í styrki til þeirra sem verða fyrir miklum áhrifum af sóttvarnaaðgerðum.
Leifur Geir Hafsteinsson hefur áður stigið fram með tónlistaratriði tengd Covid-19 faraldrinum þar sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur tekið þátt. Nú hefur litið dagsins ljós lagið „Heimavinnublús“ sem hann segir fjalla á tragíkómískan hátt um raunir þess að vera fastur í heimavinnu til lengri tíma og auðvitað áhrifin sem félagslega einangrunin getur haft á okkur öll í þessu erfiða ástandi.
„Við gerðum þennan texta í desember 2020 þegar væntingar um lok faraldursins voru miklar, og datt þá aldrei í hug að 13 mánuðum seinna yrðu margfalt fleiri dagleg COVID smit en nokkru sinni fyrr og yfirvöld enn að setja á 10 manna samkomutakmarkanir. En sú er staðan og því ákváðum við að drífa þetta út í þeirri von að það gleðji einhverja.“
Leifur Geir minnir á að þó efnistökin séu húmorísk sé undirtónninn alvarlegur því einangrun frá hverju öðru getur haft ýmis óheppileg áhrif á okkur.
„Við viljum því minna ykkur á að sýna hvert öðru kærleika, umburðarlyndi og stuðning á þessum erfiðu tímum.“
Textann gerðu þeir bræður Leifur Geir og Birgir Hrafn Hafsteinssynir en lagið er eftir Katie Peterson, sem er ein af meðlimum The Petersons, alveg frábærrar fjölskyldu-bluegrass-sveitar að sögn Leifs Geirs. Lagið heitir „The ring song“ í upprunalegri útgáfu.