„Það breytist eiginlega allt,“
segir Theodor um ferlið að eignast barn. Hann segir að Ari Eldjárn hafi orðað þetta best í uppistandinu sínu þegar hann segir að það sé nýr konungur mættur á heimilið. Þegar fyrsta barnið kemur eru foreldrarnir sjálfkrafa ekki lengur í fyrsta sæti og með hverju barni sem bætist við fjölskylduna eykst svo ábyrgðin.
Theodor segir rannsóknir sýna að á bilinu 70-80% para lendi í alvarlegum vandræðum með sambandið þegar þau upplifa barneignir. Hann bætir við að í rauninni sé það mesta furða að 20-30% séu að sleppa við alvarleg vandræði, því breytingarnar séu svo miklar.
Hann segir að móðirin gangi í gegnum alveg gríðarlegar hormónabreytingar og þeim fylgi tilfinningasveiflur. Ágreiningur í samböndum eftir barneignir er oft tengdur kynlífi sem breytist eftir að barnið kemur.
„Það er ekkert óalgengt að móðir sem er ný búin að eiga barn, hún hættir að skilgreina sig sem kynveru, hún er bara móðir. Þannig að jafnvel líkami sem áður var notaður til þess að stunda kynlíf og hafa nánd með sínum partner, það er bara ekkert lengur í boði, líkaminn er fyrir barnið núna,“
segir Theodor um breytingarnar sem geta átt sér stað. Það hefur gríðarleg áhrif á sambandið þegar kynlífið raskast bætir hann við. Hann talar um að álagið sem fylgi barneignum lendi oftar en ekki á móðurinni og þá geti myndast togstreita í sambandinu. Hann segir þó að það sé breyting til hins betra hvað feður eru orðnir virkari þátttakendur í uppeldi barna sinna en tíðkaðist áður fyrr.
„Það er svo margar tilfinningar sem geta komið upp á yfirborðið og ef við náum ekki að tala um þær að þá förum við að þegja um þær. Að þegja um tilfinningarnar með þessum hætti er eins og að henda kótelettu undir sófa og vona að hún fari. Hún fer ekkert. Hún fer bara að lykta illa og öðlast síðan svolítið sjálfstætt líf og það er það sem sársaukinn gerir innra með okkur ef við tölum ekki um hann.“ Bætir hann við og vill hvetja fólk í samböndum til þess að ræða málin og tala opinskátt um allar tilfinningarnar sem koma fram í þessum nýju aðstæðum.
Barneignum fylgir auðvitað líka mikil gleði og gæfa. Hann bætir við að það besta sem hann hafi eignast séu börnin sín og síðan barnabörnin en bendir á að vinnan sem fylgi börnum sé stanslaus og mjög krefjandi.
Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.