Innlent

101 dagur í næsta frí: „Tökum febrúar­lægðirnar beint á kassann og ekkert breik“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
101 dagur er í næsta almenna frídag, skírdag. 
101 dagur er í næsta almenna frídag, skírdag.  Vísir/Vilhelm

Landsmenn þurfa að bíða talsvert eftir næsta almenna frídegi, eða í um þrjá og hálfan mánuð. Næsti frídagur er ekki fyrr en á skírdag, sem verður í ár þann 14. apríl – eftir samtals 101 dag.

„Við tökum febrúarlægðirnar bara beint á kassann og ekkert breik,“ segir Friðrik Jónsson, formaður BHM, í samtali við Vísi. „Jibbí!,“ bætir hann við, léttur í bragði.

Allur gangur getur verið á því hvenær páskadagur fellur, en hann getur í fyrsta lagi fallið á 22. mars og í síðasta lagi á 25. apríl en allar dagsetningar þar á milli koma til greina. Páskadagur verður til dæmis 9. apríl á næsta ári og 31. mars árið 2024.

Þessar fréttir gætu reynst sumum nokkuð erfiðar enda var lítið um frí yfir hátíðirnar; hálfur dagur á aðfangadag og hálfur dagur á gamlársdag. „Og svo er bara venjulegur mánudagur í dag og fimm daga vinnuvika fram undan, þannig að þeir sem eiga uppsafnað orlof – nýtið það!“ segir Friðrik.

Einn frídagur næstu jól

Og til að bæta gráu ofan á svart verður jólahátíðin í ár sambærileg og á nýliðnu ári en þá fellur aðfangadagur á laugardag og jóladagur á sunnudag. Þá verður gamlársdagur á laugardegi.

Friðrik segir að stytting vinnuvikunnar sé þó ákveðinn plástur á sárin. „Ég held það finnist engum verra að geta safnað upp þessum fjórum tímum á viku.“

Næstu frí á eftir páska er sumardagurinn fyrsti, fimmtudaginn 21. apríl, en baráttudagur verkalýðsins 1. maí verður á sunnudegi, og þjóðhátíðardagur Íslendinga, 17. júní, verður á föstudegi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.