Innlent

Veiran heggur skarð í raðir ríkisstjórnar og Alþingis

Heimir Már Pétursson skrifar
Þrír af fimm ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hafa nú greinst með kórónuveiruna. Fámennt var á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem fimm ráðherrar af tólf voru fjarverandi.
Þrír af fimm ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hafa nú greinst með kórónuveiruna. Fámennt var á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem fimm ráðherrar af tólf voru fjarverandi. Vísir/Vilhelm

Fámennt var á ríkisstjórnarfundi í morgun en þrír ráðherrar hafa greinst með kórónuveiruna og því er veiran búin að höggva töluvert skarð í raðir þingmanna. Forsætisráðherra segir stefnt að því að ljúka þingstörfum fyrir áramót í dag en atkvæðagreiðslur um tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar hófust í morgun.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vísinda-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra greindist í morgun en áður hafði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra greinst á þorláksmessu og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindist í þær. Þá hafa þrír ráðherrar og átta þingmenn greinst með veiruna.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir hafa sett fram efasemdir innan ríkisstjórnarinnar um nauðsyn sóttvarnaaðgerða undanfarin misseri.Vísir/Vilhelm

Þingfundur hófst klukkan ellefu í morgun með kosningu þriggja manna og þriggja til vara í Landskjörstjórn. Þar á eftir hófust langar atkvæðagreiðslur um tekjufrumvörp ríkisstjórnarinnar, eða bandorminn.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fóru yfir stöðu faraldursins á fámennum ríkisstjórnarfundi snemma í morgun, þar sem fimm af tólf voru fjarverandi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fóru yfir stöðuna í faraldrinum á ríkisstjórnarfundi í morgun.Vísir/Vilhelm

„Það er einn ráðherra erlendis og annar er með staðfest smit. Einhverjir ráðherrar voru að bíða eftir niðurstöðum. Einhver er í sóttkví. Þannig að þetta er vissulega farið að hafa veruleg áhrif á störf bæði ráðherra og þingmanna,“ sagði Katrín fyrir hádegi þegar ekki lá enn fyrir að Áslaug Arna og Þórdís Kolbrún hefðu greinst smitaðar.

Þessa dagana væri metfjöldi fólks að greinast dag hvern í takti við það sem væri að gerast í öðrum löndum. Ríkisstjórnin fylgdist vel með þróun mála varðandi mögulegar aðgerðir.

„Eftir því sem líður á þessa viku fáum við betri mynd af því hvað þetta þýðir hvað varðar alvarleg veikindi og fjölda innlagna. Við gripum til ráðstafana meðal annars vegna þess að óvissan er enn mikil um hve nákvæmlega líkurnar eru á að veikjast alvarlega af þessu nýja afbrigði,“ segir forsætisráðherra.

Það væri hins vegar ljóst af þróun undanfarinna daga að afbrigið væri gríðarlega smitandi og samkvæmt gögnum frá öðrum löndum væri alltaf eitthvað hlutfall sem veiktist alvarlega og legðist inn á spítala.

Stefnt að því að ljúka þingstörfum fyrir áramót í dag

Margir varaþingmenn koma að afgreiðslu mála á Alþingi þessa dagana en átta þingmenn fyrir utan ráðherrana þrjá hafa greinst með kórónuveiruna undanfarið.  Tekjufrumvörpin eða bandormurinn svo kallaði eru nú í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Þar voru gerðar breytingar á milli umræðna.

„Það var ákveðið af meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar að framlengja "Allir vinna" fram á rúmt mitt næsta ár. Það er gert með ákveðnum rökum sem snúa að því að viðhalda í raun og veru framkvæmdastigi getum við sagt. Þetta hefur auðvitað virkað mjög hvetjandi á framkvæmdastig. Ekki hvað síst í byggingariðnaði,“ segir Katrín.

Forsætisráðherra segir stefnt að því að boða til annars þingfundar í dag eftir að atkvæðagreiðslum um tekjufrumvörpin og önnur mál lýkur og taka þá til við þriðju umræðu um tekjufrumvörpin og fjárlagafrumvarpið.

„Það er gert ráð fyrir að þingstörfum geti jafnvel lokið í dag. Það verður hér á eftir dreift þingfrestunartillögu sem gerir ráð fyrir að þing komi ekki saman aftur fyrr en hinn 17. janúar,“ segir Katrín Jakobsdóttir.


Tengdar fréttir

Mest aukning hjá tvíbólusettum en minnst hjá þríbólusettum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að nýgengi smita sé nú á mestri uppleið hjá þeim sem þegið hafi tvær bólusetningar. Hann hvetur alla til að þiggja örvunarbólusetningu því að nýgengið sé langlægst hjá þeim sem það hafa gert. Hann er ekki með tillögur að hertum aðgerðum í smíðum, þrátt fyrir að metfjöldi greinist með Covid-19 á degi hverjum.

Þórdís Kolbrún einnig með Covid-19

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, hefur greinst með Covid-19 og eru þrír ráðherrar Sjálfstæðisflokksins nú komnir í einangrun.

Áslaug Arna bætist í hóp smitaðra ráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur greinst smituð af kórónuveirunni. Hún segist vonast til að á nýju ári verði hægt að horfa til eðlilegri tíma. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×