Innlent

Hefur þroskast sem höfundur síðan hann skrifaði fyrstu bókina ellefu ára

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Smári Hannesson rithöfundur.
Smári Hannesson rithöfundur. Vísir/Stöð 2

Fjórtán ára rithöfundur sem gaf út bók fyrir jól telur börn samsama sig betur skrifum hans en fullorðinna höfunda. Hann var aðeins ellefu ára þegar hann skrásetti söguna og segist hvergi nærri hættur.

Smári Hannesson gaf út skáldsögu sína Afinn sem æfir fimleika í haust. Hún er til sölu í Pennanum Eymundsson og ætluð börnum á aldrinum 6-11 ára. Þó að titillinn vísi til afans er afastrákurinn Tómas aðalpersónan.

„Við höfum fengið að heyra að börn kannski tengi aðeins meira við hvernig ég skrifa en þegar þau eru að lesa eitthvað eftir fullorðna rithöfunda. Þetta er svolítil ráðgáta og spennusaga en líka húmor í þessu,“ segir Smári. 

Viðbrögð hafi verið mjög góð og kennarar í skólanum til dæmis keypt eintök. Þá taki vinir hans vel í útgáfuna og styðji hann.

Þroskast sem höfundur

Smári hefur varið síðustu mánuðum í kynningu á bókinni; til dæmis með fjarupplestri fyrir grunnskólabörn á Þórshöfn. Hann hefur raunar nýtt flestar lausar stundir í ritstörf síðan hann lærði að skrifa og var aðeins ellefu ára þegar hann skrifaði söguna.

„Og svo núna þegar ég les bókina þremur árum eftir að ég skrifaði hana þá tek ég eftir svolítið miklu sem ég hef bara tekið beint upp úr einhverju sem hefur komið fyrir mig.“

Hefurðu þroskast mikið sem höfundur síðan? 

„Mér finnst það. Ég skrifa allt öðruvísi núna.“

Gefur ekkert upp

Ætlarðu að verða rithöfundur? 

„Já. Ég ætla að gera það. Og skrifa fleiri bækur.“

Og hann er þegar byrjaður á næsta verki.

„En ég get eiginlega ekki sagt frá þeim á þessari stundu,“ segir Smári.

Einmitt, þú tjáir þig ekki um það frekar?

„Nei,“ segir hann dulur og brosir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.