Tíska og hönnun

Ómetanleg menningarleg arfleifð Virgil Abloh

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Virgil Abloh á Met Gala í september síðastliðnum, klæddur í Louis Vuitton
Virgil Abloh á Met Gala í september síðastliðnum, klæddur í Louis Vuitton Sean Zanni/Getty

Tískumógúllinn, listamaðurinn og hönnuðurinn Virgil Abloh féll frá í gær, sunnudaginn 28. nóvember, einungis 41 árs gamall.

Hann hafði barist við sjaldgæft krabbamein síðastliðin tvö ár og hélt baráttu sinni fjarri sviðsljósinu. Virgil Abloh starfaði sem listrænn stjórnandi karla tísku hjá tískurisanum Louis Vuitton og var fyrsti svarti maðurinn til að gegna þeirri stöðu. Einnig var stofnandi síns eigin tískumerkis Off-White. Áhrif hans á tískuheiminn eru vægast sagt söguleg og átti hann í listrænu samstarfi við hin ýmsu merki, allt frá Nike til Evian vatns. Listrænum hæfileikum hans hefur í gegnum tíðina verið líkt við kanónur á borð við Andy Warhol og Jeff Koons.

Brautryðjandinn Virgil Abloh

Aðstandendur, samstarfsfólk og aðdáendur sitja eftir með brotin hjörtu og syrgja þennan magnaða mann sem skilur eftir sig mikla menningar arfleifð. 

Virgil Abloh nálgaðist listsköpun og hönnun á einstakan hátt þar sem hann brúaði bilið á milli svokallaðs götustíls og hátísku. Hann vann hörðum höndum að nýjungum og fjölbreytni í list- og tískuheiminum og sagði að allt sem hann gerði væri fyrir útgáfu af 17 ára gömlum Virgil sem hafði stóra drauma, með því að koma að fjölbreyttari fyrirmyndum og fá fleiri til að hafa trú á sér og sínum draumum. Virgil lét mikið til sín taka í hinum ýmsu málefnum út frá listinni, til dæmis með því að gera takmörkuð eintök af ákveðnum vörum og láta allan ágóða af sölunni renna til mikilvægra málefna. Má þar nefna stuðning við LGBTQI+ samtökin, heimilislausa, svartar konur og fleira. 

Virgil Abloh hafði mikla trú á listinni og mætti hennar til að veita komandi kynslóðum innblástur. Hann lagði sitt af mörkum og meira til við að opna dyr fyrir fjölbreytt listafólk og auka jafnrétti í list og hönnun. Fyrir honum voru föt meira en efni, þau voru hluti af sjálfsvitund hvers og eins, það hvernig fólk samsvaraði sér og gat haft listrænt frelsi til að tjá sig með klæðaburði.

Fór sínar eigin leiðir

Frá og með júlí mánuði fékk Virgil stöðuhækkun hjá LVMH, Moët Hennessy Louis Vuitton, þar sem hann fékk tækifæri til að vinna með 75 ólíkum tískumerkjum og gerði þetta hann að valdamesta svarta framkvæmdastjóra tískuheimsins. Hann sóttist ekki eftir því að feta í fótspor neins en gekk sína eigin leið og ruddi brautina. Á einstakan hátt tókst honum að tengja saman klassísk og gömul tískumerki við tíðaranda samtímans.

Háskólagráður í verkfræði og arkítektúr

Virgil Abloh fór ekki í hefðbundið fatahönnunarnám en lærði fyrst verkfræði og útskrifaðist síðan með mastersgráðu í arkítektúr frá The Illiniois Institute of Technology. Móðir hans var saumakona og kenndu honum grunntökin í saumaskap. Abloh starfaði einnig sem plötusnúður og húsgagna hönnuður og hafði ástríðu fyrir fjöldanum öllum af fjölbreyttum listformum. Tónlist, tíska, hönnun, hugmyndafræði, sköpunargleði og upplifun blandaðist óaðfinnanlega saman hjá Virgil Abloh.

Vináttan við Kanye West

Þegar Virgil Abloh var 22 ára gamall kynntist hann ungum og efnilegum rappara að nafni Kanye West. Þeir unnu saman í sex mánaða starfsnámi hjá tískumerkinu Fendi þar sem þeir græddu um 500 dollara á mánuði og lærðu allt um viðskipta hliðar tískuheimsins. Árið 2010 varð Abloh listrænn stjórnandi hjá West og átti vinátta þeirra átti eftir að blómstra. Unnu þeir meðal annars saman að plötuumslögum á einhverjum frægustu tónverkum Kanye West á borð við My beautiful dark twisted fantasy, Watch The Throne og Yeezus.

Samstarf við elítuna í Southeby’s

Virgil Abloh átti í ýmsum þverfaglegum listrænum samstörfum og má meðal annars nefna hið virta uppboðs gallerí Southeby’s. Þar gegndi hann starfi sam-sýningarstjóra á uppboðs sýningu nútímalistaverka og átti í góðu samstarfi við Southeby’s. Galleríið birti færslu á Instagram þar sem þau segja mikinn heiður að hafa fengið tækifæri til að vinna með Virgil og ræða við hann um hin ýmsu listrænu málefni. Á myndbandi hér fyrir neðan má meðal annars sjá Virgil spjalla við Simon Shaw um mikilvægi listamannsins Christo sem hannaði meðal annars nýjan klæðnað sigurbogans í Parísarborg

Ómetanleg arfleifð

Virgil Abloh skilur eftir sig mikla listræna arfleifð sem komandi kynslóðir munu án efa njóta góðs af. Innblásturinn frá honum er eitthvað sem aldrei hverfur og hafa margar skærustu stjörnur heims deilt hjartnæmum kveðjum til hans þar sem þær þakka fyrir þau ómetanlegu áhrif sem hann hafði á þau. 

Hann talaði fyrir fjölbreytileika, nýjungum, öðruvísi nálgunum, sameiningu á ólíkum sviðum, auðveldara aðgengi jaðarsettra og ótal mörgu mikilvægu og kraftmiklu. 

Einn stærsti listamaður okkar Íslendinga, Ólafur Elíasson, var meðal þeirra sem deildi kveðju á Instagram. Þar þakkar hann Virgil Abloh fyrir allt, vináttuna, innblásturinn, kröfuna um breytingu og fyrir brosið sitt. Ólafur segir að hæfileikar og persónuleg, sjónræn dýpt Virgils hafi hreyft við bæði sér og börnunum sínum sem telja Abloh vera besta listamanninn. Virgil hjálpaði Ólafi að endurskoða vinnuaðferðir sínar, notast við nýjar nálganir í listsköpun og horfa fram á við. Til að heiðra arfleifð Virgil Abloh mun Ólafur halda áfram með að vera framsækinn, mennskur og raunverulegur í sínu starfi.

Ljósmyndarinn Vignir Daði fékk að upplifa DJ sett hjá Virgil á Bali árið 2019. Á þessum tíma hafði hann verið fyrirmynd Vignis í nokkur ár og hikaði hann því ekki við að drífa sig á DJ settið. Vignir greip með sér filmumyndavél og tók nokkrar myndir af honum að spila. 

Eftir DJ settið stóð Vignir fyrir utan klúbbinn og allt í einu sér hann að Virgil stendur við hliðina á sér að bíða eftir taxa. Hann segir þetta hafa verið magnaða upplifun.

Ég sagði við hann: Thanks for everything. You are one of my biggest inspirations - og hann svaraði: Thank you bro, appreciate it bro.

Vignir segir að áhrif Virgil Abloh séu ómælanleg:

Hann var svo ótrúlega framarlega í öllu sem hann tók sér fyrir hendur. Hvort sem það var fatahönnun eða annars konar listræn stjórnun. Hann er maðurinn á bak við tjöldin og maðurinn á bak við listina sem heilu kynslóðirnar elska. Hans verður sárt saknað.

Virgil Abloh lætur eftir sig eiginkonu sína Shannon Abloh og börnin Lowe og Grey Abloh. Hans verður vissulega sárt saknað en áhrif hans og arfleifð lifa áfram í hjörtum og sköpunargleði allra þeirra sem voru undir áhrifum Virgils Abloh.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.