Menning

RAX Augnablik: „Þegar maður vaknaði þá var maður á kafi í snjó

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hundurinn Glói tók á móti þeim félögum í norðangarranum sem blés hressilega þann daginn, og Ragnar stóðst ekki mátið að smella af honum mynd.
Hundurinn Glói tók á móti þeim félögum í norðangarranum sem blés hressilega þann daginn, og Ragnar stóðst ekki mátið að smella af honum mynd. Vísir/RAX

Árið 1996 heimsótti Ragnar Axelsson hjónin Björn og Hildi í Grjótnesi á Melrakkasléttu, ásamt Guðna Einarssyni blaðamanni, til þess að kynnast þeim og lífinu í Grjótnesi. 

Hjónin voru tvö eftir á bæ sem taldi hátt í 40 íbúa þegar best lét. Hundurinn Glói tók á móti þeim félögum í norðangarranum sem blés hressilega þann daginn, og Ragnar stóðst ekki mátið að smella af honum mynd.

RAX og Guðni völdu að gista í bílnum í miklu frosti þar sem hús hjónanna var aðeins upphitað að hluta. Þeir vöknuðu þó ískaldir. 

„Það var tíu til tólf stiga frost en það var það kalt að það snjóaði inni. Þegar maður vaknaði þá var maður á kafi í snjó. Kannski var það líka af því að bíllinn var svo óþéttur. Þetta var skemmtilegur bíll en versti bíll í heimi.“

Bílnum fylgdu fleiri vandamál, sem meðal annars urðu til þess að þeir komu báðir heim læstir í bakinu. Frásögnina má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan. RAX Augnablik eru örþættir og þátturinn Í norðangarra í Grjótnesi er tæpar sex mínútur að lengd.

Klippa: RAX Augnablik - Í norðangarra í Grjótnesi

Í þáttunum RAX AUGNABLIK segir ljósmyndarinn Ragnar Axelsson sögurnar á bak við margar af sínum þekktustu myndum. Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og eru sögurnar hans ævintýralegar. Nýr þáttur kemur út á hverjum sunnudegi hér á Vísi og á Stöð 2+. 

Hægt er að sjá alla þættina HÉR á Vísi.


Tengdar fréttir

RAX Augnablik: „Þetta var falleg vinátta manns og hunds“

Ragnar Axelsson smellti mynd af Axel á Gjögri, þar sem hann sat í bátnum sínum og sagði honum sögu. Á steini við hlið hans var hundurinn Týri, en ljósmyndarinn bað ekki um leyfi áður en hann tók þessa einstöku mynd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×