Enski boltinn

Zidane hefur ekki áhuga á að taka við af Solskjær

Sindri Sverrisson skrifar
Zinedine Zidane lauk seinna skeiði sínu sem þjálfari hjá Real Madrid í vor.
Zinedine Zidane lauk seinna skeiði sínu sem þjálfari hjá Real Madrid í vor. Getty/Juan Manuel Serrano

Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hafa kannað möguleikann á að fá Zinedine Zidane sem næsta knattspyrnustjóra félagsins. Frakkinn hefur hins vegar ekki áhuga.

Þetta fullyrðir meðal annars breska ríkisútvarpið, BBC, í dag og segist hafa heimildir fyrir því úr innsta hring Zidane.

Ole Gunnar Solskjær var rekinn úr starfi hjá United í gær eftir 4-1 tap gegn Watford. Norðmaðurinn hefur verið valtur í sessi síðustu vikur og er Zidane á meðal þeirra sem helst hafa verið nefndir sem hugsanlegur arftaki hans.

Samkvæmt heimildum BBC hefur Zidane ekki áhuga á að taka við á Old Trafford í augnablikinu. Hann hefur verið orðaður við franska landsliðið og PSG, og myndi frekar vilja taka við öðru þeirra ef sá möguleiki byðist í náinni framtíð.

Mauricio Pochettino, sem oft hefur verið orðaður við United í gegnum tíðina, er núverandi stjóri PSG. Samkvæmt frétt BBC hafa forráðamenn franska félagsins fulla trú á Pochettino og ekki stendur til að skipta honum út.

Zidane hefur verið án starfs síðan að hann hætti hjá Real Madrid í maí en það er eina liðið sem hann hefur stýrt sem þjálfari – fyrst árin 2016-2018 og svo aftur frá 2019-2021.

Frakkinn vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð á fyrri þremur tímabilum sínum hjá Real og stýrði Real til spænska meistaratitilsins 2017 og 2020.


Tengdar fréttir

Solskjær látinn fara frá Man. United

Ole Gunnar Solskjær hefur verið leystur frá störfum sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Þetta staðfestir félagið á samfélagsmiðlum og á vefsíðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×