Innlent

Guðni sækir friðar­ráðstefnu í París og fundar með Macron

Atli Ísleifsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun meðal annars eiga fund með Emmanuel Macron Frakklandsforseta.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun meðal annars eiga fund með Emmanuel Macron Frakklandsforseta. Vísir/Vilhelm

Guðni Th. Jóhannesson forseti heldur til Parísar á morgun þar sem hann mun taka þátt í alþjóðlegri friðarráðstefnu, Paris Peace Forum, í boði Emmanuels Macrons Frakklandsforseta.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands segir að Guðni muni eiga tvíhliða fundi með Macron og Maia Sandu, forseta Moldóvu. 

„Síðdegis býður sendiráð Íslands í París til móttöku þar sem forseti flytur erindi um sýnileika smáþjóða í alþjóðastarfi – nauðsyn þess og áskoranir. Loks mun forseti sitja kvöldverð í Elysée-höll, ásamt öðrum þjóðhöfðingjum, í boði Frakklandsforseta.

Að morgni föstudagsins 12. nóvember sækir forseti ráðstefnuna Green Hydrogen Symposium sem fram fer í Lúxemborgarhöll. Þar verður fjallað um framþróun á sviði vetnismála í Frakklandi og á Íslandi. Öldungadeild franska þingsins stendur fyrir vetnisráðstefnunni, í samvinnu við fransk-íslenska viðskiptaráðið og sendiráð Íslands í París, og mun forseti flytja erindi um orkuskipti og áskoranir í þeim efnum. Ráðstefnuna sækja einnig fulltrúar franskra orkufyrirtækja og forstjórar Landsvirkjunar, Grænvangs og HS Orku á Íslandi.

Síðdegis á föstudag heldur forseti á aðalráðstefnu UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer annað hvert ár og er að þessu sinni haldin samhliða 75 ára afmælishátíð stofnunarinnar. Forseti flytur stutt ávarp á aðalráðstefnunni, en Ísland er nú í framboði fyrir hönd Norðurlandanna til framkvæmdastjórnar UNESCO árin 2021–2025.

Á vettvangi afmælisviðburðar UNESCO mun forseti eiga tvíhliða fundi með Alar Karis, nýkjörnum forseta Eistlands, og Salome Zourabichvili, forseta Georgíu,“ segir í ferð forseta til Frakklands. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×