Innlent

Ó­sam­mála Sól­veigu og Viðari: „Trúnaðar­mennirnir voru að sinna sínum skyldum“

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Drífa og Sólveig Anna þegar Lífskjarasamningurinn var kynntur í apríl 2019.
Drífa og Sólveig Anna þegar Lífskjarasamningurinn var kynntur í apríl 2019. Vísir/Vilhelm

Drífa Snæ­dal, for­seti Al­þýðu­sam­bandsins (ASÍ), segir að slá beri skjald­borg um trúnaðar­menn. Hún geti ekki tekið undir gagn­rýni frá­farandi for­ystu­fólks Eflingar í garð trúnaðar­manna skrif­stofu fé­lagsins og telur þá hafa verið að sinna sínum skyldum.

„Sólveig má eiga það sem hún á. Hún hefur verið afskaplega góður málsvari kvenna og láglaunafólks en hins vegar er það þannig að starfsfólks stéttarfélaga vinnur afskaplega mikilvægt starf og trúnaðarmenn líka og það ber að slá skjaldborg um trúnaðarmenn," segir Drífa í samtali við fréttastofu spurð út í gagnrýni sem trúnaðarmenn Eflingar hafa orðið fyrir af hálfu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem sagði af sér sem formaður Eflingar og Viðars Þorsteinssonar, sem sagði upp sem framkvæmdastjóri félagsins í kjölfarið.

Viðar sagði við Vísi í síðustu viku að framganga trúnaðarmannanna hefði verið óverjandi þegar þeir sendu stjórnendum félagsins ályktun þar sem kvörtunum starfsfólks vinnustaðarins í garð stjórnendanna var komið á framfæri.

Viðar lýsti þessu svo:

„Ég tel að það að trúnaðarmenn fari fram með þeim hætti sem þarna var gert sé algjörlega óverjandi. Og ég myndi, sem fulltrúi stéttarfélags, aldrei hvetja trúnaðarmenn til þess undir nokkrum kringumstæðum að setja niður á blað grófar, ærumeiðandi og mannorðsdrepandi ásakanir á hendur sínum vinnufélögum."

Voru að sinna sínum skyldum

Drífa lítur ekki eins á málið:

„Þeirra hlutverk er að miðla upplýsingum á milli yfirstjórnar og starfsfólks,“ segir hún.

Þannig finnst þér þetta hafa verið óvægin orðræða í garð trúnaðarmannanna?

„Trúnaðarmennirnir voru að sinna sínum skyldum að bera á milli óánægju starfsfólks til stjórnenda. Ég lít þannig á það.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×