Sport

„Ef Tom Brady heldur að ég geti sigrað krabbameinið þá get ég það“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Noah Reed og Tom Brady en Brady sendi stráknum kveðju sem hjálpaði honum í gegnum mjög erfiða tíma.
Noah Reed og Tom Brady en Brady sendi stráknum kveðju sem hjálpaði honum í gegnum mjög erfiða tíma. Samsett/Youtube&Getty

Þær gerast varla fallegri sögurnar en sú af níu ára strák sem trúði svo mikið á Tom Brady að NFL-ofurstjarnan hjálpaði honum að komast í gegnum hreint helvíti þegar hann greindist með krabbamein í heila.

SportsCenter á ESPN tók saman vasaklútamyndband um strákinn sem mætti á leik Tom Brady á dögunum og fékk heimsathygli fyrir skiltið sitt og samskipti sín við sjálfan Tom Brady.

Noah Reed er níu ára gamall strákur sem fékk krabbamein í heila fyrir ári síðan og gekk í framhaldinu í gegnum fullt af lyfjameðferðum og fjölmargar skurðaðgerðir. Það þurfti að skera meinið burtu í mörgum aðgerðum sem og að reyna að minnka það með lyfjunum.

Strákurinn var mikill aðdáandi Tom Brady og það var kveðja frá sjálfum Brady á einum erfiðasta tímapunktinum í ferlinu sem átti svo mikinn þátt í því að hann komst í gegnum allt og sigraðist á krabbameininu.

„Ef Tom Brady heldur að ég geti sigrað krabbameinið þá get ég það,“ sagði Noah Reed í viðtalinu. Mamma hans fer yfir það hversu erfitt hann átti þegar kveðjan frá Tom Brady kom eins og stormsveipur og reif hann aftur í gang.

Jeff Darlington á ESPN heimsótti strákinn til Utah og fékk að heyra alla söguna.

Bandarískir fjölmiðlar fjölluðu mikið um skilti Noah Reed sem hann var með á leik Tampa Bay Buccaneers. Á því stóð Tom Brady hjálpaði mér að sigrast á krabbameini í heila.

Það var útherji Tom Brady, Chris Godwin, sem sá strákinn fyrst og sagði Brady frá honum. Brady kom síðan til hans, gaf honum derhúfu og kastaði á hann kveðju.

Tárin runnu niður kinnarnar á Noah og hann bræddi hjörtu allra sem á horfðu. Hann fékk líka heimsókn frá ESPN í framhaldinu sem tók viðtal við strákinn og móður hans.

Myndbandið má sjá hérna fyrir ofan.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×