Óhætt er að segja að samfélagsmiðlar hafi logað í gær og í morgun eftir umfjöllun og viðtal fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV við Þóri Sæmundsson sem var á sínum tíma rísandi stjarna á íslensku leiksviði. Þar kom fram að eftir að kynferðisleg myndasending hans komst í hámæli árið 2017 hafi hann verið utangarðs og fái hvergi vinnu. Spurt var hvort hann eigi afturkvæmt í íslenskt samfélag.
Margir sýndu Þóri samkennd á samfélagsmiðlum en á móti stigu einnig margir fram einkum á Twitter sem gagnrýndu Kveik fyrir að tala við geranda.
Ólöf Tara Harðardóttir stjórnarkona í Öfgum segir gagnrýnina skiljanlega.
„Við erum að stíga okkar fyrstu skref í að taka samtalið um þessi mál, en þurfum líka að taka inn í myndina að þolendum hefur verið útskúfað í tugi ára. Margir hafa ekki átt afturkvæmt inn í samfélagið.
Hún segir að þolendur þurfi að fá sviðið núna.
„Mér finnst kominn tími til að við gefum þolendum rými. Þetta er ekki endilega rétti tíminn til að opna á svona umræðu, þ.e. þegar það er ekki komið meira jafnvægi á umræðuna því þolendur ofbeldis liggja ennþá undir höggi,“ segir hún.
Aðspurð hvort hún telji þá að það eigi ekki að tala við gerendur í fjölmiðlum svarar Ólöf.
„Við viljum auðvitað geta byggt upp samfélag þar sem fólk sem brýtur af sér komist aftur inn í samfélagið. En að okkar mati þarf gerandinn að axla fulla ábyrgð og sýna iðrun svo hann eigi afturkvæmt. En það er ekki þar með sagt að hafir þú brotið á annarri manneskju að þú fáir forréttindin þín líka til baka. Það þarf að vega líka á móti umfjöllun hver áhrifin eru á þolendur. Við þurfum að gera okkur grein fyrir báðum vinklum,“ segir Ólöf.
Hún veltir fyrir sér hvort Vinnumálastofnun eigi mögulega að bjóða upp á úrræði fyrir fólk sem hefur brotið af sér og á erfitt uppdráttar í samfélaginu eftir það.
„Hvernig getum við nálgast svona mál á faglegan hátt? Væri kannski sniðugt að bjóða upp á eitthvað endurhæfingarprógram fyrir menn eða konur sem brjóta svona af sér. Þar sem fólk fær tækifæri til betrunar,“ segir Ólöf Tara.