Fótbolti

Stærsta tap Bayern í 45 ár

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Thomas Müller og félagar hans í Bayern hafa aldrei upplifað annað eins tap.
Thomas Müller og félagar hans í Bayern hafa aldrei upplifað annað eins tap. Lars Baron/Getty Images

Bayern München tapaði óvænt 5-0 er liðið mætti Borussia Mönchengladbach í þýsku bikarkeppninni í kvöld, en þetta var stærsta tap félagsins síðan í október 1976.

Heimamenn í Mönchengladbach tóku forsytuna strax á þriðju mínútu, og staðan var orðin 3-0 eftir rétt rúmlega tuttugu mínútna leik. Breel Embolo bætti svo tveimur mörkum við í seinni hálfleik og niðurstaðan varð 5-0 sigur heimamanna.

Það sem er kannski merkilegast við sigur Mönchengladbach er að liðið átti aðeins sex skot á markið og fimm þeirra enduðu í netinu. Þýsku meistararnir áttu fleiri skot en heimamenn og voru meira með boltann, en náðu ekki að koma honum í netið.

Eins og áður segir var þetta stærsta tap Bayern síðan 1976, en þann 9. október það ár tapaði liðið 7-0 gegn Schalke í þýsku úrvalsdeildinni. Það tap er það stærsta í sögu félagsins.

Þetta var aðeins annað tap Bayern undir stjórn Julian Nagelsmann, en hann tók við liðinu í byrjun júlí á þessu ári. Nagelsmann var reyndar ekki viðstaddur, en hann er í sóttkví eftir að hafa greinst með kórónaveiruna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.