Fótbolti

Sveindís Jane: Níu mörk í tveimur leikjum er frábært

Óskar Ófeigur Jónsson og skrifa
Sveindís Jane Jónsdóttir var ánægð með uppskeru kvöldsins.
Sveindís Jane Jónsdóttir var ánægð með uppskeru kvöldsins. Vísir/Vilhelm

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í 5-0 sigri á Kýpur í kvöld í undankeppni HM. Þetta voru fyrstu landsliðsmörk hennar í meira en ár.

„Við komum í leikinn til þess að vinna og það var erfitt að koma inn í hann vitandi það að við eigum að vera betra liðið. Þetta var svona skyldusigur og það var því gott þegar fyrsta markið kom því þá vissum við að það væru að fara koma fleiri mörk sem gekk,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir eftir leikinn í samtali við Ingva Þór Sæmundsson.

Þetta voru fyrstu landsliðsmörk Sveindísar síðan í fyrsta landsleiknum en var hún búin að bíða svolítið eftir því að skora fyrir landsliðið?

„Ég hugsaði alveg út í það að það væri svolítið langt síðan ég skoraði síðast en meðan við erum að vinna þá er það í lagi. Auðvitað er gott að fá mörkin líka þannig að ég er alveg sátt með þetta,“ sagði Sveindís Jane en hvað með mörkin.

„Í fyrsta markinu sá ég bara markið og ákvað að láta vaða. Ég er ánægð með að það skot hafi farið á rammann. Við vildum skjóta eins og við gætum á markmanninn til að láta reyna á hana og sjá hvernig hún væri,“ sagði Sveindís Jane.

„Í seinna markinu þá ætlaði ég kannski að senda hann á Dagnýju en ég tek markið í staðinn,“ sagði Sveindís Jane.

„Við vildum skora eins mörg mörk og við gátum. 5-0 er ágætt og níu mörk í tveimur leikjum er frábært. Við gögnum sáttar frá borði núna,“ sagði Sveindís Jane.

„Þetta er allt galopið í riðlinum og við vitum alveg hvað markmiðið okkar er. Þetta er allt á góðri leið,“ sagði Sveindís Jane.

Klippa: Viðtal við Sveindísi eftir sigur á KýpurFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.