Innlent

Allt að ársbið eftir sálfræðingi

Birgir Olgeirsson skrifar
Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðissviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðissviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vísir/Arnar

Dæmi eru um að fólk þurfi að bíða í allt að ár eftir sálfræðiaðstoð hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Skortur er á sálfræðingum að sögn framkvæmdastjóra geðheilbrigðismála.

Biðtími eftir geðheilbrigðisaðstoð hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins getur verið frá nokkrum vikum og upp í ár.

Ef beðið er eftir þjónustu geðheilbrigðisteymis, sem er fyrir þá sem þurfa á þverfaglegri aðstoð að halda og þéttri eftirfylgni, getur biðtíminn verið nokkrar vikur og upp í fimm til sex mánuði. Biðtími til sálfræðinga á heilsugæslustöðvum, sem fólk með vægari vanda sækir í, getur verið misjafn. Stöðvarnar eru 15 talsins og getur biðtíminn verið frá nokkrum vikum og sum staðar upp í ár.

„Það vantar fólk á sumar stöðvarnar. Eftirspurnin er gríðarlega mikil eftir þessari þjónustu,“ segir Guðlaug Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri geðheilbrigðismála hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

Mikil eftirspurn er eftir sálfræðingum í samfélaginu og erfitt að keppast um þá. Fimmtíu sálfræðingar starfa hjá heilsugæslunni í dag.

„Þeir vinna úti í bæ. Þeir vinna í endurhæfingu, þeir eru í rannsóknum, kennslu, vísindum og vinnustöðvum. Það er orðinn svo breiður starfsvettvangur fyrir þá að sækja um að það er sannarlega samkeppni um þessa stétt.“

Að hluta til megi rekja biðtímann til þess að þjónustan er að mestu niðurgreidd af ríkinu. Þeir sem fá þessa aðstoða greiða fimm hundruð krónur.

„Á meðan ef það er farið út í bæ til sálfræðings þá þarf að borga 18 til 20 þúsund fyrir viðtalið,“ segir Guðlaug. 

Ásóknin sé því gríðarleg sem stendur en aukið fjármagn var sett í þessa þjónustu í fyrra og í ár. Hvert framhaldið verður á því er óvitað. Þeir sem helst leita eftir þessari þjónustu hjá heilsugæslunni þjást af þunglyndi og kvíða.

„Síðan eru það allskyns lífskrísur sem fólk lendir í að sjálfsögðu. Fólk á að koma til okkar fyrst, sérstaklega ef vandinn er ekki orðinn alvarlegur. Þar eigum við að  hjálpa fólki að þurfa ekki að fara eitthvað lengra í kerfinu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.